Allt að 30% rýrnun hjá Íslenska lífeyrissjóðnum

„Það er þungbært fyrir stjórn og stjórnendur sjóðsins að færa sjóðfélögum slík tíðindi og boða jafnframt óhjákvæmilega skerðingu lífeyrisgreiðslna á næsta ári til þeirra sem hafa hafið útgreiðslu. Þetta hörmum við innilega.“

Þetta segir í bréfi sem forsvarsmenn Íslenska lífeyrissjóðsins, Ingólfur Guðmundsson stjórnarformaður og Davíð Harðarson framkvæmdastjóri, sendu viðskiptavinum sjóðsins fyrr í vikunni. Rekstraraðili sjóðsins er Landsbanki Íslands en viðskiptavinir hans greiddu viðbótarlífeyrissparnað sinn í sjóðinn.

Rýrnun á sparnaðarleiðum sjóðsins, sem eru frá I til IV og skiptast eftir aldri og völdum áherslum hvers og eins, við fall bankanna er misjöfn. Sú leið sem átti að vera áhættuminnst og var ætluð fyrir 65 ára og eldri rýrnaði mest af öllum eða um ca. 30 prósent. Aðrar leiðir rýrnuðu litlu minna. Leið I, sem er ætluð fólki á aldrinum 16 til 44 ára, rýrnaði um 27 prósent, Líf II fyrir 45 til 54 ára um 26 prósent og Líf III fyrir 55 til 64 ára um 29 prósent, sé mið tekið af varúðarniðurfærslu og lækkun að nafnvirði.

Davíð segir neyðarlögin frá 6. október hafa gjörbreytt lagaumhverfi sem fjárfestingarstefna lífeyrssjóða taki mið af. Því hafi forsendur ávöxtunar kollvarpast í einni svipan. „Þetta eru hlutir sem ekki er hægt að búa sig undir með neinu móti. Undanfarna 15 mánuði höfum við dregið úr áhættu, meðal annars með því að fjárfesta meira í skuldabréfum. Það var lögfest að bankainnstæður skyldu njóta forgangs og vera tryggðar að fullu en ekki skuldabréf í bönkum. Áður en þessi lög voru samþykkt var mikið óöryggi fólgið í því að vera með allt fé í innlánum, þar sem lágmarkstryggingin nam aðeins um þremur milljónum. Reglunum sem við unnum eftir var þannig breytt eftir á og skerðing á lífeyrissparnaði okkar viðskiptavina skýrist af þessu, öðru fremur,“ segir Davíð.

Meðaltalsávöxtun síðustu fimm ára á sparnaðarleiðum Íslenska lífeyrissjóðsins hefur verið frá 4,9 til 7 prósent.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert