Hundrað og fjörutíu milljónir í EXPO 2010

Kostnaður Íslands vegna þátttöku í heimssýningunni EXPO 2010 nemur um 210 milljónum króna. Tveir þriðju þess kostnaðar, eða 140 milljónir hið minnsta, verða greiddir úr ríkissjóði.

Ákveðið hefur verið að Ísland taki þátt í Heimssýningunni í Shanghai í Kína árið 2010. Heimssýningin er haldin á fimm ára fresti með þátttöku flestra ríkja heims. Heimssýningin var síðast haldin í Aichi í Japan árið 2005.

Þátttaka Íslands í EXPO 2010 er samstarfsverkefni fyrirtækja og hins opinbera og hefur verið tekinn á leigu 500 m² sýningarskáli sem verður á svæði með hinum Norðurlöndunum.

Heimssýningin verður haldin frá 1. maí til 31. október 2010 undir yfirskriftinni „Betri borg - betra líf“. Gert er ráð fyrir að 70 milljón gestir sæki sýninguna að þessu sinni. Til að vinna að undirbúningi verkefnisins hefur verið komið á fót framkvæmdahóp, undir forystu utanríkisráðuneytisins en í honum sitja fulltrúar hlutaðeigandi ráðuneyta, sveitarfélaga, fyrirtækja og menningarstofnana.

Gert er ráð fyrir að kostnaður Íslands vegna þátttökunnar verði um 210 milljónir króna og verður kostnaðurinn borinn af ríki, borgstofnunum og atvinnulífi.

Í frumvarpi til fjáraukalaga er sótt um 70 milljóna króna framlag en 70 milljónir eru áætlaðar á fjárlögum 2009. Í upphaflegu fjárlagafrumvarpi var gert ráð fyrir 190 milljónum vegna EXPO 2010 en það var skorið niður fyrir 2. umræðu um fjárlög 2009 og verður 70 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert