Hvalveiðar til umræðu á Alþingi

Ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon, Kristján L. Möller og Ögmundur Jónasson …
Ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon, Kristján L. Möller og Ögmundur Jónasson á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Hvalveiðar bar talsvert á góma í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar á Alþingi í kvöld. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sagðist m.a. ekki trúa því fyrr en hann tæki á, að ríkisstjórn sem þingreyndustu þingmenn Alþingis veita forstöðu, fari með harkalegum hætti gegn vilja þings og þjóðar og afturkalli ákvörðun, sem hann tók um hvalveiðikvóta. 

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sagði m.a. að hvalveiðar byggi á skynsamlegri og ábyrgri auðlindanýtingu og séu í samræmi við alþjóðlegar reglur og samþykktir og íslensk lög, skapi  verðmæt störf á tímum atvinnuleysis, búi til gjaldeyri sem mikil þörf sé á og geti starfað á eigin viðskiptalegu forsendum með sölu afurða.

„Og því spyr ég: hvers vegna ættum við að banna slíka atvinnustarfsemi?" sagði Einar og bætti við að það myndi skjóta skökku við ef ráðherra í minnihlutastjórn tæki einhliða ákvörðun  um að fara gjörsamlega á svig við vilja þjóðarinnar og Alþingis. Slíkt væri ekki ráðherraræði  heldur hreint ráðherraofríki, stjórntaktar sólkonunga en ekki ráðherra, sem sæki stöðu sína og vald til þingsins.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, tók í sama streng. Þegar Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, flutti sína ræðu, var kallað úr sal hvort Íslendingar ættu ekki að fara að veiða hval.

„Hvert er svarið? Jú, það stendur ekki á mér ef það er hægt að nýta þá tegund í lífríkinu í samræmi við alþjóðalög og viðurkenndar reglur. En við skulum líka virða þá staðreynd, að íslensk ferðaþjónusta er mesta vaxtagrein íslensks atvinnulífs um áratuga skeið... Við skulum þá líka af yfirvegun meta okkar heildarhagsmuni og láta ekki tilfinningar bera okkur ofurliði. Tökum kalda raunsæja afstöðu til þess í hverju eru okkar heildarhagsmunir best fólgnir. Við skulum ekki hrapa að ákvörðun. Við skulum ekki taka stórar umdeildar pólitískar ákvarðanir á meðan við erum hlaupandi út úr dyrunum vegna þess að við höfum misst völdin í landinu," sagði Steingrímur.

Um þetta sagði Einar, að glitt hefði í nýjan tón hjá Steingrími í fyrsta skipti í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert