Vonin um loðnu að dvína

Enn er leitað að loðnu, enda haldið í vonina um veiðar í lengstu lög. Nú er svo komið að finnist ekki meiri loðna á rúmri viku héðan í frá er vonin úti. Loðnuvertíðin hefur verið árviss búbót síðan á öndverðum níunda áratugnum. Útgerðarmenn segja það því mikið áfall ef hún verður ekki í ár.

Að sögn Þorsteins Sigurðssonar, sviðsstjóra nytjastofnasviðs hjá Hafrannsóknastofnun, eru áherslur við leitina nú breyttar. Framan af var gert ráð fyrir hefðbundinni loðnugöngu réttsælis í kringum landið. Því var á síðustu vikum mikið leitað úti fyrir Suðaustur- og Suðurlandi, eftir ferðalag loðnunnar norður og austur fyrir landið.

Nú hefur hins vegar verið horfið frá því í von um að óhefðbundin loðnuganga komi upp að Vestfjörðum frá köldum ætisslóðum í norðri og vestri og gangi beint inn til hrygningarsvæða í Faxaflóa og Breiðafirði, án þess að fara hringinn. Komi slíkar göngur eru þær oftar en ekki frekar seint á ferðinni.

„Það er það sem við erum að fylgjast með núna. Þess vegna erum við hættir að einblína á Suðaustur- og Suðurland, og erum nú að skoða Vestfirðina og Vesturlandið,“ segir Þorsteinn. Faxi RE, fór í fyrradag að leita við Snæfellsnes, ekki síst í Kolluál vegna fregna um loðnu þar, en hefur ekki haft erindi sem erfiði. Þá lagði rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson upp í leiðangur á föstudag og hefur leitað á Látragrunni og grunnt meðfram Vestfjörðum. Skip frá HB Granda hafa hins vegar leitað á djúpslóðinni. Aðspurður hversu lengi sé raunhæft að leita til viðbótar segir Þorsteinn erfitt að segja til um það. „Það er kannski vika í viðbót sem sá gluggi er opinn. En auðvitað er það breytilegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert