Hindra auðlindaafsal til ESB

Frá Skagafirði.
Frá Skagafirði. mbl.is/Kristinn

Umtalsverðar breytingar eru boðaðar á stjórnarskránni í frumvarpinu til stjórnskipunarlaga, sem fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram á Alþingi. Ljóst er þó að þessar breytingar verða ekki gerðar á stjórnarskránni nema nýtt þing sem kosið verður 25. apríl samþykki þær óbreyttar. Engar breytingar er hægt að gera á stjórnarskrá nema þær séu samþykktar af tveimur þingum með kosningum á milli.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um að náttúruauðlindir, sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, séu þjóðareign. Lagt er til ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í frumvarpinu eru einnig settar fram nýjar aðferðir við breytingar á stjórnarskránni, sem ganga út á að samþykki Alþingi slíkar breytingar skuli þær bornar undir þjóðaratkvæðagreiðslu en án þess að boðað sé til þingkosninga. Þá er lagt til að kallað verði saman stjórnlagaþing í síðasta lagi 1. desember nk., sem endurskoði stjórnarskrána frá grunni.

Stjórnlagaþingið verði skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa og það á að ljúka störfum í seinasta lagi 17. júní árið 2011.

Þrátt fyrir miklar umræður árum saman hefur aldrei náðst samkomulag um að setja í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Nú er lagt til að lýst verði yfir í stjórnarskrá að náttúruaðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign. „Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi,“ segir í frumvarpinu. Vakin er athygli á því að þessi yfirlýsing geti haft gildi í tengslum við mögulega aðild Íslands að ESB, „að því leyti sem þar kynni að reyna á eignarhald náttúruauðlinda á borð við nytjastofna á Íslandsmiðum. Þótt íslenska ríkið mundi gangast undir framsal fullveldisréttar til stofnana Evrópusambandsins hvað varðar stjórnun fiskveiða og ráðstöfunarrétt nytjastofna í tengslum við úthlutun veiðiheimilda mundi stjórnarskrárákvæðið hindra að eignarréttur þjóðarinnar að fiskveiðiauðlindunum færðist yfir til Evrópusambandsins eða annarra ríkja,“ segir þar.

Lagt er til að 15% kjósenda geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Miðað við núverandi fjölda kjósenda eru það að lágmarki 30 þúsund manns. Á þessu eru þó gerðar þær undantekningar að ekki er hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum. Eru þessi takmörk m.a. til að standa vörð um fjárstjórnarvald þingsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert