Lengi barist fyrir frelsi til að veiða á handfæri

Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda.
Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda. mbl.is/Ómar

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, fagnar framkomnu frumvarpi um strandveiðar. „Við höfum lengi barist fyrir frelsi til handfæraveiða og þetta frumvarp er fyrsta skrefið í þá átt. Eins og frumvarpið ber með sér eru nokkur belti og nokkur axlabönd á því, til þess væntanlega að girða fyrir það að þetta springi með látum. En það er tilraunarinnar virði að sjá til hvernig þetta kemur út,“ segir Arthur.

Hann segir að veiðarnar séu takmörkunum háðar og hvort skilyrðin gangi of langt sjáist þegar á þau reyni. Hann geti þó sagt það nú að hann telji óþarft að vera með tímatakmarkanir á veiðunum, þ.e. 12 klukkustundir á degi hverjum, því veiðarnar séu hvort sem er takmarkaðar við 800 kílóa veiði yfir daginn. Tímamörkin geri það að verkum að þeir sem þurfi að sækja langt á miðin eigi erfitt og jafnvel ómögulegt með að nýta sér strandveiðarnar.

Ekki hrist fram úr erminni

Arthur segist hafa orðið var við umtalsverðan áhuga fyrir þessum veiðum en kannski ekki eins mikinn og sögur hafa gengið um. Hann segir vel í lagt að áætla að 300 bátar muni stunda veiðarnar og telur að þeir verði færri. „Menn verða að átta sig á því að það er meira en að segja það að hefja slíkan veiðiskap. Menn þurfa að eiga bát og rúllur og þetta þarf að vera í lagi og uppfylla kröfur til jafns við það sem gerist hjá núverandi atvinnubátum. Þessi veiðiskapur hefur lotið heldur betur í gras eftir að dagakerfi smábáta var aflagt. Það er búið að selja marga báta úr landi, jafnvel þá bestu.“

Arthur segir ennfremur að allir aðdrættir hafi hækkað um tugi prósenta. Viðhald og vélahlutir, svo dæmi séu tekin, hafi jafnvel hækkað um 100%. Það sé ágætt að menn fái innsýn í það hvað kosti að gera út bát. „Þetta er ekki eins og að fara með skóflu út í banka og byrja að moka út,“ segir Arthur, og bætir við að þetta sé kannski ekki alveg heppileg samlíking þessa dagana. „Ég þekki þetta sjálfur frá fornu fari, þegar veiðarnar voru algerlega frjálsar, að ég átti aldrei pening. En maður var hamingjusamur í baslinu og ástríðan að gera út bát er sterk hjá okkur Íslendingum,“ segir hann.

60 til 65% daganýting?

Heimilt er að stunda veiðarnar á virkum dögum mánuðina júní til ágúst. Þetta gerir 73 daga. Arthur segist hafa fengið símtöl frá mönnum, sem hafi talið að þeir geti róið í 73 daga og veitt 800 kíló á hverjum degi. Þannig næðu þeir að veiða 58 tonn. „Þetta er mikill misskilningur. Það er fráleitt að það sé logn og blíða alla daga, jafnvel yfir sumarið. Ég tel algert hámark að reikna með 60-65% nýtingu á dögum,“ segir Arthur. Hann segir að það segi sig sjálft að takmarkað magn af þorski takmarki það hve mikið einstakir bátar muni veiða í sumar. Þá sé þorskverðið lægra að sumri til en á veturna og það takmarki enn afraksturinn. Áætla megi að hvert tonn af þorski muni seljast á ca. 220 þúsund krónur.

Nýtt líf í höfnunum

Arthur telur að þeir sem geti fyrst og fremst nýtt strandveiðarnar séu þeir sem séu á atvinnuveiðum núna og þeir sem eigi verkefnalausa báta. Hann telur að strandveiðunum verði fagnað í mörgum plássum, þar sem smábátum hefur fækkað mikið á síðustu árum. Nefnir hann Flateyri sem dæmi. Þar séu gerðir út tveir bátar en þeir skiptu áður tugum. „Flestir munu fagna því að fá líf við bryggjurnar og bið við löndunarkranana,“ segir Arthur.

Ranghermt var í frétt í fyrradag að kvóti strandveiðanna væri 6.455 tonn. Hið rétta er að hann er 3.955 tonn af óslægðum þorski, 119 tonn af ýsu og 593 tonn af ufsa, samtals 4.667 tonn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert