Landvættanna er saknað

Þeir Gammur, Griðungur, Dreki og Bergrisi komu til Reykjavíkur í gær á vegum Götuleikhússins í tilefni þjóðhátíðardagsins. Þeir félagar urðu þó viðskila eftir að til höfuðborgarinnar kom og hefur ekkert spurst til þeirra síðan. Leit mun standa yfir í miðborginni í dag.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins og nágrannasveitarfélaga hafa að venju úr mörgu að velja en þess má sérstaklega geta að ókeypis aðgangur verður í Þjóðminjasafnið á þessum þjóðlega degi. Í dagskránni kennir margra grasa og leiðsögn verður um sýningar á íslensku og ensku. Á Árbæjarsafni verða þjóðbúningar í aðalhlutverki og þeir sem mæta í einum slíkum þurfa ekki að greiða aðgangseyri. Fólk af erlendum uppruna er sérstaklega hvatt til að mæta í þjóðbúningi síns heimalands. Upp úr hádegi safnast fornbílar saman við safnið og þaðan verður keyrt niður í miðbæ Reykjavíkur.

Þar fer dagskráin fram á fjórum sviðum og stendur frá kl. 10 til 23. Tímasett dagskrá er á slóðinni www.17juni.is. Á Arnarhóli og Ingólfstorgi hefst dagskráin kl. 14. Kl. 17 verða tónleikar íslenskra tónlistarkvenna á Ingólfstorgi.

Um kvöldið eru tónleikar á Arnarhóli þar sem fram kemur fjöldi hljómsveita. Í Ráðhúsinu verður harmóníkuball og á Austurvelli verða gospeltónleikar.

Frítt í Byggðasafnið

Hafnfirðingar geta glaðst í heimabyggð, en þar verður dagskráin á Víðistaðatúni og hefst fjölskylduskemmtun kl. 14.30. Ókeypis aðgangur verður að öllum sýningum Byggðasafns Hafnarfjarðar milli kl 11 og 17.

Á Thorsplani verður kvöldskemmtun frá kl. 20. Þar kemur fram sjálf Jóhanna Guðrún og stelpurnar úr Fúlum á móti skemmta fólki. Hljómsveitin Egó kemur einnig fram.

Kópavogsbúar verða vaktir með tónum brassbanda frá Skólahljómsveit Kópavogs. Hið árlega 17. júní-hlaup fyrir börn á aldrinum 6-11 ára verður við Kópavogsvöllinn og hefst það kl. 10. Skrúðganga fer kl. 13.30 frá Menntaskólanum í Kópavogi og lýkur henni á Rútstúni en þar tekur við hátíðar- og skemmtidagskrá. KK mætir með gítarinn, Ræningjarnir í Kardimommubænum láta sjá sig o.m.fl. Útitónleikar verða á Rútstúni kl. 20- 22.20.

Í Mosfellsbæ hefst dagskrá kl. 10 en formleg setning verður á bæjartorginu kl. 13. Frá bæjartorginu munu skátar leiða skrúðgöngu að Hlégarði þar sem dagskráin heldur áfram. Dagskráin endar með dansleik í Hlégarði.

Landsmenn eru hvattir til að gleðjast á þessum góða degi og taka hástöfum undir með Dúmbó og Steina.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert