Áætlun um afnám hafta

Skrifað var undir sáttmálann í Þjóðmenningarhúsinu.
Skrifað var undir sáttmálann í Þjóðmenningarhúsinu. mbl.is/Eggert

Lögð verður fram áætlun fyrir 1. ágúst um afnám gjaldeyrishaftanna, sem sett voru á í haust. Markmiðið með þessu er að tryggja stöðugleika krónunnar. Leitast verði við að aflétta hömlum á nýrri fjárfestingu fyrir 1. nóvember 2009.

Þetta kemur m.a. fram í stöðugleikasáttmála, sem forsvarsmenn ríkisstjórnar, sveitarfélaga, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar og stéttarfélaga skrifuðu undir í Þjóðmenningarhúsinu í dag. 

Þar segir, að hömlum á gjaldeyrisviðskiptum verði aflétt í áföngum í samræmi við tímasetta áætlun ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að koma stöðugleika á gengi íslensku krónunnar.  Áætlunin verði lögð fram fyrir 1. ágúst og taki mið af lausn á vanda vegna fjármagnsflæðis úr landi. Leitast verði við að aflétta hömlum á nýrri fjárfestingu fyrir 1. nóvember 2009.

Meðal þeirra leiða sem reynt verði að fara sé að erlendir aðilar fái uppgerðar kröfur sínar í krónum á hendur ríki eða Seðlabanka með skuldabréfum til langs tíma í evrum eða öðrum erlendum gjaldmiðlum. Þá verði látið reyna á áhuga lífeyrissjóðanna á að koma að viðskiptum við erlenda aðila sem eiga eignir í íslenskum krónum.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir, að í upphafi viðræðna um stöðugleikasáttmálann hafi samningsaðilar sett sér markmið um að í lok árs 2010 verði verðbólga ekki yfir 2,5%, halli hins opinbera verði ekki meiri en 10,5% af vergri landsframleiðslu, að dregið hafi úr gengissveiflum, gengið styrkst og hafi nálgast jafnvægisgengi. Einnig verði vaxtamunur við evrusvæðið innan við 4%. Þannig hafi skapast skilyrði fyrir auknum fjárfestingum innlendra sem erlendra aðila, auknum hagvexti, nýrri sókn í atvinnumálum og grunnur lagður að bættum lífskjörum til framtíðar.

Samhliða gerð þessa sáttmála hafa aðilar vinnumarkaðarins sameinast um að eyða óvissu á vinnumarkaði með því að ljúka gerð kjarasamninga sem gilda til nóvemberloka árið 2010, þar sem áhersla er lögð á að styrkja stöðu þeirra tekjulægstu. 

Helstu atriði sáttmálans önnur eru þessi:

  • Fyrirliggjandi aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum til 2013 lögð fram og sameiginlegur skilningur skapaður á markmiðum tímabilsins 2009 – 2011. Hlutdeild skattahækkanna verður ekki meiri en 45% af þeirri upphæð sem þarf til að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálunum.
  • Mikil áhersla á að tryggja að bætt verði staða lántakenda og skuldsettra heimila. Ríkisstjórn fer yfir og endurskoðar fyrirliggjandi úrræði og gerðar tillögur um viðbætur eftir því sem þörf krefur.
  • Framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu þar sem lögð er áhersla að greiða götu stórframkvæmda og ráðist í samstarf við lífeyrissjóði um þátttöku í fjármögnun verkefna.
  • Tímasettar áætlanir um endurreisn bankanna og eigendastefnu ríkisins, erlendir aðilar muni geta eignast hlut í íslenskum fjármálafyrirtækjum m.a. til að greiða fyrir aðgangi að lánsfé. Endurskipulagning eignarhalds bankanna lokið 1. nóvember 2009.
  • Sameiginleg viðmið mótuð um endurreisnar atvinnulífsins og aðkomu opinberra aðila að atvinnustarfsemi og eignarhaldi á fyrirtækjum.
  • Tímasettar ráðstafanir í gengismálum þar sem lögð verður fram áætlun fyrir 1. ágúst um afnám hafta . Markmiðið með þessu er að tryggja stöðugleika krónunnar. Leitast verði við að aflétta hömlum á nýrri fjárfestingu fyrir 1. nóvember 2009.
  • Vaxtamál þar sem aðilar vinnumarkaðarins lýsa því að vextir verði að lækka og verði komir í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember.
  • Sameiginlegt átak í málefnum sem snúa að sveitarfélögunum og varða samstarf á sviði efnahagmála og samræmingu upplýsinga og aðgerða í búskap hins opinbera.
  • Framtíðarsýn í málefnum lífeyrissjóða verður til skoðunar og stefnt er að því að fresta öllum ákvörðunum um skerðingu réttinda og fjármögnun frestað meðan fyrrnefnd skoðun fer fram.
  • Virkt samstarf um eftirlit á vinnustöðum og innleiðingu vinnustaðaskírteina til að tryggja réttindi starfsfólks, vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta.
  • Framkvæmd yfirlýsingar ríkisstjórnar frá 17. febrúar 2008 um réttindi launafólks er varða Starfsendurhæfingarsjóð, sjúkra og fræðslusjóði og fullorðinsfræðslu.

Sáttmálinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert