Yfir 100 flensusmit staðfest

Reuters

Alls hafa greinst 101 tilfelli með staðfesta sýkingu af völdum inflúensu A(H1N1)v veiru á Íslandi frá því í maí 2009. Þar af eru 55 karlar og 46 konur. Ekki er vitað um alvarleg veikindi af völdum inflúensu A(H1N1)v veirunnar hérlendis, samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu.

Af þeim sem hafa greinst með flensuna eru 70 búsettir á höfuðborgarsvæðinu en enginn hefur greinst með flensuna á Suðurlandi, Vestmannaeyjum og Vestfjörðum.

Að sögn Haraldar Briem, sóttvarnarlæknis, er yngsta barnið sem hefur smitast hér á landi fjögurra ára gamalt. 

Haraldur á von á því að fljótlega verði hætt að taka sýni á höfuðborgarsvæðinu  en það verði áfram gert á landsbyggðinni þar sem fá tilfelli hafa greinst. Staðfestum tilfellum hefur fjölgað mikið frá því á föstudag og segir Haraldur það benda til þess að flensan sé að ná sér á strik á Íslandi. Búast megi við því að aukningin verði áfram mikil á næstunni. 

Að sögn Haraldar er fylgst með því ef sjúklingur er með öll einkenni til staðar án þess að sýni sé tekið og þannig verði áfram haldið utan um þann fjölda sem smitast. „Það kostar mikla fyrirhöfn og peninga að taka sýni úr öllum."

Flestir þeirra sem hafa smitast undanfarið hafa smitast á Íslandi og er það breyting frá fyrri vikum.

Ekki hafa enn komið upp alvarleg tilfelli flensunnar hér á landi en 25-30% þeirra sem hafa greinst hafa fengið flensulyfið tamiflu. Haraldur segir að ljóst sé að eftir því sem fleiri smitast og hún breiðir meira úr sér aukist líkurnar á því að þeir sem eru veikir fyrir fái flensuna.

Hér er hægt að skoða nánari upplýsingar um aldur smitaðra og búsetu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert