Enginn Íslendingur vill vera á áhrifasvæði Rússa

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. mbl.is/RAX

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segir á heimasíðu sinni að „geopólitískt" gildi Íslands hafi gjörbreyst á skömmum tíma vegna breyttra aðstæðna í Norður-Íshafi. 

Björn vísar í grein sinni m.a. til leiðara Financial Times í dag og greinar Evu Joly í Morgunblaðinu og fleiri evrópskum blöðum nýlega þar sem gefið sé til kynna, að Ísland kunni að reka í faðm Rússa vegna framgöngu Hollendinga og Breta í Icesave-málinu.

Segir Björn, að viðkvæmni sendiherra Rússlands í garð Joly, sýni að komið sé við auman blett á Moskvustjórninni, þegar látið sé að því liggja, að fleira hangi á spýtu hennar gagnvart Íslendingum en fyrirheit um fjárhagslega aðstoð.

„Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, hefur sagt, að hann ætli að „selja“ ESB-ríkjunum aðild Íslands að ESB með þeim rökum, að Ísland opni leið að auðlindum á norðurslóðum. ESB ætlar að ná tökum á þessum auðlindum og auka áhrif sín á Norðurskautinu. Í því tilliti keppir sambandið við Rússa. Aðgangseyrir okkar að nánara samstarfi við ESB, svo að ekki sé talað um aðild, er að sætta okkur við Icesave-afarkostina.

Enginn Íslendingur vill, að á Ísland verði litið sem hluta af áhrifasvæði Rússa.

Vandi okkar Íslendinga er, að nú er við völd í landi okkar ríkisstjórn tveggja flokka. Annar þeirra sér ekkert nema aðild að Evrópusambandinu. Hinn hefur aldrei viljað viðurkenna, að Ísland hafi geopólitískt eða strategískt gildi fyrir NATO og Norður-Ameríku. Hvorugum þessara flokka er því miður treystandi til að fylgja fram þeirri utanríkisstefnu á örlagatímum, sem dugar til að skapa íslensku þjóðinni nauðsynlegt svigrúmið sem sjálfstæð eyþjóð í N-Atlantshafi," segir Björn.

Grein Björns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert