Niðurstaða ráðuneytisins kemur á óvart

Harðar deilur hafa verið um áform Landsvirkjunar um þrjár virljanir …
Harðar deilur hafa verið um áform Landsvirkjunar um þrjár virljanir í neðri hluta Þjórsár. mbl.is/RAX

Aðalsteinn Sveinsson, oddviti hreppsnefndar Flóahrepps, segir það koma á óvart að samgönguráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að hreppnum hafi ekki verið heimilt að semja við Landsvirkjun um greiðslu kostnaðar vegna skipulagsvinnu. 

Aðalsteinn tekur hins vegar fram í samtali við mbl.is að hann sé ekki búinn að lesa allan úrskurð ráðuneytisins, sem barst sveitarfélaginu í gær. Hann segir hins vegar að það komi á óvart hvernig ráðuneytið túlki lögin, en um stefnubreytingu sé að ræða.  Niðurstaða ráðuneytisins um að framkvæmdaaðilar megi ekki taka þátt í kostnaði vegna skipulagsins sé „alveg klár u-beygja í túlkun á þessum lögum.“

Aðspurður segist Aðalsteinn reikna með því að sveitarfélagið verði að skila því fé sem Landsvirkjun hefur greitt vegna vinnunnar. Hann tekur hins vegar fram að verið sé að fara yfir málið.

Gunnar Örn Marteinsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, tekur í sama streng og Aðalsteinn þegar hann segir niðurstöðu ráðuneytisins koma á óvart. Sveitarfélagið gerði svipaðan samning við Landsvirkjun og Flóahreppur.

Hann kveðst hins vegar vera rólegur yfir þessum tíðindum. Það verði að skoða hvort samningur Flóahrepps við Landsvirkjun sé svipaður þeim sem Skeiða- og Gnúpverjahreppur gerði.

„Við erum að fara yfir þetta. Það verður að sjá hvort eitthvað sé í þessum samningi sem við gerðum sem er eitthvað sambærilegt. Þá bara skoðum við það og bregðumst við því,“ segir Gunnar Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert