Getnaðarvarnir dýrari í kreppu

Smokkar á boðstólum.
Smokkar á boðstólum. Reuters

„Við höfum áhyggjur af því ef ungt fólk fer í auknu mæli að sleppa því að nota getnaðarvarnir vegna þess að þær þyki of kostnaðarsamar,“ segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. 

Hún situr í stjórn Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir (FKB), sem í samvinnu við Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) og Ástráður, fræðslusamtök læknanema, stendur í dag fyrir alþjóðlega getnaðarvarnadeginum hérlendis.

Að sögn Ebbu er alþjóðlegi getnaðarvarnadagurinn alþjóðleg herferð sem miðar að því að skapa heim þar sem allar þunganir eru velkomnar. Dagurinn hefur verið árlegur viðburður víða um heim en þetta er í fyrsta skiptið sem Ísland tekur þátt.

Í samtali við mbl.is bendir Ebba á að kostnaður við getnaðarvarnir hafi  aukist töluvert í kjölfar gengishrunsins. Ungt fólk finni sérstaklega fyrir þessu. Verð á smokkum hefur nærri tvöfaldast á rúmu ári og salan hefur dregist saman um fjórðung. Pakki með 12 smokkum kostar rúmar 2.000 krónur í apótekum. Einnig hafa læknar orðið varir við að konur vilji skipta yfir í ódýrari getnaðarvarnir og jafnvel að þær hafi hætt að nota þá vörn sem þær voru að nota áður vegna fjárskorts. Bendir Ebba á að þriggja mánaða skammtur af getnaðarvarnarpillunni geti kostað hátt á áttunda þúsund krónur.

Að mati Ebbu ættu íslensk stjórnvöld að fara að dæmi t.d. breskra stjórnvalda og veita ungu fólki yngra en 25 ára getnaðarvarnir ókeypis. Bendir hún á að á síðasta ári hafi verið framkvæmdar tæplega 1000 fóstureyðingar á Íslandi og þar af höfðu um 34 % kvennanna farið áður í fóstureyðingu.

„Það fer engin kona í fóstureyðingu að gamni sínu, því þetta er mikið álag fyrir þær konur sem þurfa á slíkri aðgerð að halda,“ segir Ebba. Tekur hún fram að þetta háa hlutfall veki upp spurningar hvort þessar konur hafi ekki verið að nota getnaðarvarnir sem skyldi. Segir hún heilbrigðisstarfsfólk hérlendis óttast að bæði fóstureyðingum og ungum mæðrum fjölgi vegna þess hve getnaðarvarnir eru orðnar dýrar.

Spurð um markmið herferðarinnar segir Ebba ljóst að ætlunin sé að  bæta aðgengi að upplýsingum og auka vitund ungs fólks um getnaðarvarnir í þeim tilgangi að einstaklingar geti tekið upplýstar ákvarðanir um kynlíf og kynheilbrigði.

Bendir hún á að plakötum með skilaboðum í þessa átt hafi  verið dreift í skóla og heilsugæslustöðvar. Einnig sé tilgangurinn að hvetja fólk almennt til að ræða um getnaðarvarnir en yfirskrift herferðarinnar er „Þín rödd, þitt líf: Tölum um getnaðarvarnir.“

Í upplýsingum frá þeim sem standa að herferðinni kemur fram að ungt fólk sem rætt hafi  verið við í tengslum við herferðina tali sérstaklega um að það fái misvísandi skilaboð um kynlíf. Um leið og kynlíf hefur aldrei verið eins áberandi  og nú í sjónvarpi og á netinu, þá fái ungt fólk oft þau skilaboð að kynhegðun þeirra sé óæskileg og eitthvað sem beri að blygðast sín fyrir. Þessi tvískinnungur í afstöðunni til kynlífs sé eitt af því sem stuðli að því að getnaðarvarnir séu feimnismál.
 
Alþjóðleg heimasíða herferðarinnar er www.your-life.com og þar er að finna ýmsar fróðlegar upplýsingar.


Pillan hefur snarhækkað í verði í kjölfar gengishruns krónunnar.
Pillan hefur snarhækkað í verði í kjölfar gengishruns krónunnar. Sigurður Jökull
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert