Dómstólum gert að spara

mbl.is/ÞÖK

Búist er við flóðbylgju mála í kjölfar bankahrunsins en á sama tíma er héraðsdómstólunum gert að spara 50 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fyrirliggjandi fjárlögum, eða 5% að raungildi.

„Miðað við það gríðarlega álag sem er í uppsiglingu og er þegar farið að sjást er þetta algerlega ófullnægjandi. Í raun og veru þyrfti að stórauka fjárheimildir í þeirri stöðu sem dómstólarnir eru núna og þegar höfð er í huga fyrirsjáanleg flóðbylgja mála á næstu misserum,“ segir Helgi I. Jónsson, dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur og starfandi formaður dómstólaráðs.

Vill fjölga dómurum

Helgi skrifaði Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra bréf í vikunni fyrir hönd dómstólaráðs þar sem hann gerir tillögu um að héraðsdómurum verði fjölgað tímabundið um fimm vegna fyrirsjáanlegra anna og aðstoðarmönnum dómara um þrjá auk fjölgunar annars starfsfólks sem leiðir af fjölgun dómara. Þá er óskað eftir rýmkun á heimild dómara til að kveðja sérfróða meðdómendur til setu í dómi, þar sem ljóst þyki að um ýmis lögfræðileg atriði verði fjallað sem ekki hafi áður reynt á fyrir dómi.

Fyrstu dómarnir vegna bankahrunsins hafa þegar verið kveðnir upp og mörg mál í farvatninu. Þá hafa Héraðsdómi Reykjavíkur borist á sjötta tug ágreiningsmála vegna gjaldþrota sem orðið hafa í kjölfar hrunsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert