Mikil réttaróvissa í evrópsku regluverki

Steingrímur J. Sigfússon í Stokkhólmi.
Steingrímur J. Sigfússon í Stokkhólmi. mynd/norden.org

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir í viðtali við sænsku fréttastofuna TT í dag, að hann sé sammála Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um að það sé óþægilegt hvernig lánafyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið spyrt saman við Icesave-deilur Íslendinga við Breta og Hollendinga.

Á fundi norrænu forsætisráðherranna og forsætisráðherra Eystrasaltsríkjanna í gær lýsti Jóhanna vonbrigðum með að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði tengt Icesave við lánafyrirgreiðslu við Íslendinga.

Dagens Nyheter spurði Steingrím í dag hvort hann væri sammála Jóhönnu og hann segir, að íslensk stjórnvöld telji það nánast vandræðalegt að lánafyrirgreiðsla AGS hafi verið tengd við Icesave sem sé allt annað mál. „Icesave hefur stöðvað lánaáætlun AGS og það erum við óánægð með," segir Steingrímur.

Hann segir að Íslendingar vilji gjarna fá lögfræðilega niðurstöðu í þetta mál og það ríki mikil réttaróvissa í evrópska regluverkinu. 

„En við þurfum að lifa við þetta. Og við erum þakklát fyrir að Norðurlöndin leggja fram stærsta hlutann af lánapakkanum. Það hefði þó verið betra að það mál hefði ekki tengst Icesave."

Steingrímur segir jafnframt í viðtalinu, að þótt enn sjái ekki fyrir endann á efnahagserfiðleikum Íslendinga hafi þróunin þó ekki orðið eins slæm og óttast var og nokkrar ljósglætur sjáist í myrkrinu. Þar á meðal er að atvinnuleysi er ekki eins mikið og spáð var og verg landsframleiðsla hefur ekki dregist eins mikið saman og óttast var.

Þá hafi útflutningur aukist vegna gengisþróunarinnar og sömuleiðis hafi ferðaþjónusta notið góðs af.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert