Hnúfubakurinn heldur áfram för sinni

Hnúfubakur á Faxaflóa
Hnúfubakur á Faxaflóa Ljósmynd Edda Elísabet

Hnúfubakur sem Hafrannsóknarstofnun merkti þann 21. október síðastliðinni í Eyjafirði og hefur gerst víðförull síðan svamlar nú um sjóinn í grennd við Reykjavík, samkvæmt mælingum stofnunarinnar.  Síðast fréttist af hvalnum í gærkvöldi norðarlega í Faxaflóa. 

Hvalurinn hefur því lagt að baki 2069 kílómetra leið á 18 dögum. Fljótlega eftir að hann var merktur með gervitunglasendi í Eyjafirði hélt hann norður í Íslandshaf og var staddur um 180 km norður af Skaga 26. október. Þaðan synti hnúfubakurinn til suðvesturs og eyddi 4 sólarhringum á litlu svæði um 100 km NV af Horni, en hélt svo að mynni Ísafjarðardjúps (2. nóvember). Síðan hefur hvalurinn synt suður með vesturströnd landsins, inn í Breiðafjörð og var að morgni 6. nóvember í norðanverðum Faxaflóa.

Markmið verkefnis Hafrannsóknarstofnunar er að kanna ferðir skíðishvala við landið og far þeirra frá íslenskum hafsvæðum á haustin. Yfirumsjón með verkefninu er í höndum Gísla A. Víkingssonar hvalasérfræðings, en merkingarnar voru framkvæmdar af Tryggva Sveinssyni skipstjóra á bát Hafrannsóknastofnunarinnar Einari í Nesi.

Hægt er að fylgjast með ferðum hnúfubaksins hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert