Umgengni við ísvélar batnar

Matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur segir, að niðurstöður rannsókna á örverufræðilegum gæðum íss úr vél bendi til að umgengni við ísvélar og ísblöndur fari batnandi en þeim fyrirtækjum fer fækkandi, sem eru með ófullnægjandi niðurstöður vegna kólígerla. Ný rannsókn sýnir að öðru leyti svipaðar niðurstöður og tvö síðastliðin ár.

Matvælaeftirlitið hefur undanfarin ár kannað örverufræðileg gæði íss úr vél á sölustöðum í Reykjavík. Alls voru tekin 73 íssýni á 49 sölustöðum í Reykjavík frá maí til júlí í sumar. Heilbrigðisfulltrúar fóru í september og október í eftirfylgni til þeirra fyrirtækja sem höfðu verið með ófullnægjandi niðurstöður tvisvar eða oftar um sumarið og ný sýni tekin. Aðbúnaður á sölustöðum var einnig kannaður, ýmis atriði varðandi ísvélarnar athuguð og hitastig mælt.

Niðurstöður í fyrstu sýnatöku núna í sumar sýndu að örverufræðileg gæði íss úr vél voru fullnægjandi hjá 21 af 49 sölustöðum í Reykjavík eða hjá 42% fyrirtækja. Niðurstöður voru ófullnægjandi hjá 15 eða 31% fyrirtækja og 13 fyrirtæki eða 27% fengu athugasemd eftir fyrstu sýnatöku.

Örverufræðileg gæði íss úr vél voru komin í gott horf eftir aðra sýnatöku hjá flestum fyrirtækjum. Tímabundinni sölustöðvun á ís úr vél var beitt hjá fjórum fyrirtækjum, þremur í sumar og einu í haust. 

Matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur stefnir á að halda áfram könnun sinni á örverufræðilegum gæðum íss úr vél sumarið 2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert