Landlæknir og Lýðheilsustofnun sameinist

Nefnd heilbrigðisráðherra leggur til sameiningu stjórnsýslustofnana á sviði heilbrigðismála.
Nefnd heilbrigðisráðherra leggur til sameiningu stjórnsýslustofnana á sviði heilbrigðismála. Friðrik Tryggvason

Nefnd um breytta skipan stjórnsýslustofnana heilbrigðisráðuneytisins leggur til að landlæknisembættið og Lýðheilsustofnun verði sameinuð undir nafninu „Landlæknir – Stjórnsýslustofnun lýðheilsu og velferðarmála“.

Ögmundur Jónasson fyrrverandi heilbrigðisráðherra skipaði nefndin á síðasta ári. Nefndin telur að embætti landlæknis sé ekki nægilega öflug stofnun. Skilgreina þurfi embættið sem lykilstofnun, líkt og sambærilegar stofnanir á hinum Norðurlöndunum. Skerpa þurfi á hlutverki landlæknisembættisins og efla það sem eftirlitsstofnun, bæði á sviði heilbrigðis- og velferðarmála.

Nefndin segir að greining á starfsemi þessara stofnana sýndi að hlutverk þeirra falli vel saman. Því sé raunsætt að samþætting skapi samlegðaráhrif. Hin nýja stofnun yrði miðstöð upplýsingaöflunar, greiningar og upplýsingamiðlunar á sviði heilsu og velferðar.

Nefndin leggur einnig til að þessi nýja stofnun fái eftirlitshlutverk með umönnunarstofnunum, meðferðarstofnunum og starfsemi starfsendurhæfingar í félagsgeiranum, sem hið opinbera greiðir til.

Nefndin leggur til að lyfjagreiðslunefnd verði flutt til Lyfjastofnunar. Nefndin telur að huga eigi að samlegðaráhrifum sem hægt væri að ná fram með sameiningu Geislavarna ríkisins og Vinnueftirlits ríkisins, en báðar stofnanirnar annast eftirlit með vinnustöðum, í þágu heilsuverndar og velferðar. Kanna eigi hvort skynsamlegt geti verið að færa Vinnueftirlit ríkisins undir heilbrigðisráðuneytið, en það heyrir í dag undir félagsmálaráðuneytið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert