Með fíkniefni á leið á söngkeppni

Vörsluskammtar af fíkniefnum fundust í bílnum.
Vörsluskammtar af fíkniefnum fundust í bílnum. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á Blönduósi tók í nótt þrjú ungmenni undir áhrifum fíkniefna. Fólkið, sem er á aldrinum 17-18 ára, var á leið til Akureyrar þar sem Söngkeppni framhaldsskólanna fer fram í kvöld.

Bíll fólksins var stöðvaður um tvö leytið í nótt sem hluti af almennu eftirliti. Fljótlega kviknaði hins vegar grunur hjá lögreglu um að ökumaðurinn væri undir áhrifum fíkniefna. Er sá grunur reyndist á rökum reistur var leitað í bílnum þar sem fundust nokkrir vörsluskammtar af kannabis og gerði lögreglan þá upptæka.

Viðurkenndi annar farþeganna að eiga efnin.  Skýrsla var tekin af ungmennunum áður en þeim var sleppt.

Mikill fjöldi ungmenna er nú samankominn á Akureyri vegna söngkeppninnar. Að sögn lögreglunnar á staðnum hefur allt þó verið með friði og spekt í bænum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert