Allsber í búningsklefanum en sendur á fund

Össur Skarphéðinsson, alklæddur.
Össur Skarphéðinsson, alklæddur.

Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sagði í skýrslu hjá rannsóknarnefnd Alþingis, að sunnudaginn 28. september 2008 hefðu hann verið staðið allsber í búningsklefanum í World Class á leið í gufubað og verið að halda sér sérstaklega til því að hann var í fyrsta skipti á ævinni að fara til klæðskera. 

„Ég meina, ég stóð allsber í búningsklefanum í World Class, var að fara í gufubað á sunnudegi og var að halda mér sérstaklega til því að ég var í fyrsta skipti á ævinni að fara til klæðskera. Og leit á símann minn í fötunum áður en ég fór í gufuna og þá sá ég bara að þar voru ógeðslega mörg símtöl og sms frá Einari Karli (Haraldssyni) sem var staddur í Glasgow og sagði að það væru allir að leita að mér, það væri einhver krísa og ég yrði að hringja í Ingibjörgu Sólrúnu þannig að ég klæddi mig og hringi í hana.

Þá sagði hún mér það að ég ætti að fara niður í Glitni og það væri krísa þar og hún sagði mér hvað væri um að ræða, Glitnir væri að fara niður. Hún sagði mér af tillögunni sem lægi fyrir, ég man ekki betur, 75 prósentunum, og ég sagði við hana: Bíddu, á ég að fara þarna? Ég meina, [ég hef] hvorki áhuga né vit á þessu, og hún sagði: Það þarf einhvern sem þarf að stýra þessu af okkar hálfu sem hefur reynslu. Og ég sagði við hana: En á ég þá ekki að taka viðskiptaráðherra með mér?

Hún sagði: Nei. Jón Þór (Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra) verður þarna með þér. Ég sagði: En á ég ekki að hringja í viðskiptaráðherrann? Og hún sagði: Ekki strax, þannig að ekki tala við neinn, „keep it under wraps“. Og ég fór þarna eða ég hringdi í Jón Þór og hringdi í klæðskerann, hef ekki séð [hann] síðan, og fór þarna niður eftir. Og hún sagði: Þarna munu þeir, þeir munu bíða þarna eftir þér, Geir Haarde og Árni Matt. Og ég kom þarna svona um hálfsjö.“

Í skýrslunni er einnig vitnað í ummæli  Sigríðar Logadóttur, starfsmanns Seðlabnankans, sem sat fundi þetta síðdegis. „Og mér var sérstaklega  minnisstætt að þegar fundurinn er að hefjast þá snýtir Össur sér og segir yfir fundarborðið að hann hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum.“

Sigríður segir einnig, að síðan hafi fundurinn endað snögglega, „og ég hugsaði með mér: Bíddu, ætlar enginn að „rappa“ upp hvað var sagt og hvaða ákvörðun
var tekin? En ég meina, það var bara ég allavegana náði engri ákvörðun þarna, enda var engin ákvörðun tekin," er haft eftir Sigríði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert