Meiri hagvöxtur í Reykjavík en á landsbyggðinni

Hagvöxtur eftir einstökum landshlutum er mestur á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.
Hagvöxtur eftir einstökum landshlutum er mestur á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Ómar Óskarsson

Á árunum 2003-2008 jókst hagvöxtur á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum eða 40-45%. Á landsbyggðinni jókst hagvöxtur hins vegar að meðaltali um 15%. Þetta kemur fram í ársskýrslu Byggðastofnunar.

Framleiðsla jókst mest á Austurlandi eða um 31% á þessum fimm árum, fyrst og fremst vegna nýs álvers og nýrrar virkjunar. Á Vesturlandi og Suðurlandi var einnig nokkur vöxtur. Á Vestfjörðum og Norðurlandi var hins vegar stöðnun eða afturför.

Byggðastofnun segir að myndin sé að vísu nokkru flóknari, því að vöxturinn á Austurlandi var aðeins í Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði, vöxtur á Vesturlandi var einkum á Akranesi og vöxtur á Suðurlandi var aðallega vestan Þjórsár. Annars staðar á landinu breyttist framleiðslan hér um bil ekkert.

Þegar horft er yfir þessi fimm ár er svo að sjá að hagvöxtur hafi verið bundinn við höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess og Austurland. Nokkur breyting virðist verða árið 2008. Það ár munaði ekki miklu á hagvexti á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2009 var lítill munur á mannfjöldabreytingum á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Tekjur jukust hins vegar heldur meira á landsbyggðinni í krónum talið.

Þegar skoðaðar eru tölur um framleiðslu á mann í milljónum króna á verðlagi 2000 má sjá að frá 2003 til 2008 fer munur á tekjum eftir landshlutum vaxandi. Árið 2003 var framleiðsla á mann á höfuðborgarsvæðinu um 1% yfir landsmeðaltali, en árið 2008 var höfuðborgarsvæðið orðið 8% yfir landsmeðaltali. Athygli vekur að framleiðsla á mann á Norðurlandi dróst aftur úr öðrum á tímabilinu. Árið 2003 var hún að jafnaði 5-10% undir landsmeðaltali, en árið 2008 var hún 25-30% undir meðaltali á landinu öllu.

Þegar skoðað er hvernig hagvöxtur áranna 2003 til 2008 er samsettur eftir atvinnugreinum sést að þjónusta er sú atvinnugrein sem jókst langmest á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni þess. Sjávarútvegur færðist frá Austurlandi og Norðurlandi til Suðurnesja. Opinber starfsemi var að eflast á landinu öllu, en svo er sjá að hún hafi að nokkru leyti færst frá Vestfjörðum og Norðurlandi suður til höfuðborgarsvæðisins. Ekki kemur á óvart að iðnaður á mikinn þátt í hagvexti á Austurlandi og Vesturlandi. Nýtt álver hóf framleiðslu í Reyðarfirði og álverið í Hvalfirði var stækkað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert