Samfylkingin gagnrýnir eigin ráðherra

„Með því að samþykkja þessa gagnrýni á frumvarpið er Samfylkingin í borgarráði að gagnrýna sinn eigin iðnaðarráðherra og gera lítið úr þeirri vinnu sem hefur verið lögð í að vernda þau svæði sem eru friðlýst,“ segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.

Hún er mjög ósátt við að meirihluti borgarstjórnar skuli hafa samþykkt umsögn borgarlögmanns um frumvarp iðnaðarráðherra til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða, sem tekin var fyrir á borgarráðsfundi í dag.

Í umsögninni er kafli sem varðar gildissvið verndar- og nýtingaráætlunar og segir Sóley að þar komi fram talsverður ákafi gagnvart rannsóknum og orkunýtingu á friðlýstum svæðum. 

„Svona er þetta í frumvarpinu, það á að leyfa þessum svæðum að njóta vafans og ekki fara með orkurannsóknir inn á þau, einfaldlega vegna þess að þau hafa ákveðið gildi og ákveðna vernd. Í umsögninni er lýst yfir áhyggjum yfir þessu, að þessi svæði séu ekki undir í nýtingaráætluninni og þar með ekki leyfðar rannsóknir eða orkuvinnsla á þessum svæðum.“

Sóley segir Vinstri græn telja mikilvægt að svæðin njóti þeirrar verndar sem þau hafi öðlast.

Þá segir hún merkilegast að þetta mál varði sveitarfélögin ekki neitt.

„Þessi hluti umsagnarinnar er stórpólitískur og varðar umhverfisvernd á landsvísu og kemur Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum mjög lítið við. Þetta er pólitísk deila sem er verið að taka þarna á milli stjórnsýslustiga, af fólki í sama flokki.“

Einnig gagnrýnir Sóley afstöðu Besta flokksins.

„Besti flokkurinn var á sama fundi að segja frá því að vistvænn bíll sé kominn til umráða á skrifstofu borgarstjóra og þessi flokkur hefur verið að leggja sig fram um að vera umhverfisvænn flokkur. Mér þykir því mikið umhugsunarefni að hann skyldi samþykkja umsögnina þegjandi og hljóðalaust.“

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert