Leiðtogafundur á Menningarnótt

Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, verður á þönum í dag á …
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, verður á þönum í dag á Menningarnótt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, setur Menningarnótt formlega kl. 13 í dag í tjaldi við Ferðamálastofu Íslands, Geirsgötu 9. Leiðtogafundur svokallaður verður við setninguna þegar Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Jón Gnarr hittast, en Akureyri er gestasveitarfélag hátíðarinnar í ár.

Sjö listamenn frá sjö landshlutum mála sjö metra langt málverk af Íslandi við Íslandstjaldið í dag. Borgarstjóri mun draga fyrstu strokuna. Við setninguna syngur kammerkórinn Cantinovum, Ari Eldjárn hefur alvarleg mál í flimtingum og Valgeir Guðjónsson syngur um nauðsyn þess að mála malbikið grænt, eins og segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Borgarstjóri verður önnum kafinn á Menningarnótt. Klukkan tólf á hádegi mun hann ræsa skemmtiskokk Reykjavíkurmaraþons. Eftir að hafa sett dagskrá Menningarnætur liggur leið Jóns Gnarr að Aðalstræti þar sem hann mun vígja borgartréð 2010 og afhjúpa skjöld við Silfurreyni í Víkurgarði kl. 14.

Klukkan 15 í dag mun borgarstjóri afhjúpa menningarskilti á Klambratúni, eða Miklatúni, þar sem á verða upplýsingar um bæinn Klambra. Verður skiltið í garðinum við horn Rauðarárstígs og Flókagötu.

Klukkustund síðar, um fjögurleytið, bregður Jón Gnarr sér í heita pottinn í Sundhöll Reykjavíkur, telur sundlaugargesti tali um leið og hann sýnir Reykjavíkurhandklæðið sem vann minjagripasamkeppni fyrr á árinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert