Krotarar sóðuðu út leikskóla

Sóðarnir létu leiktæki barnanna ekki óáreitt.
Sóðarnir létu leiktæki barnanna ekki óáreitt. Ljósmynd/Ægisborg

Kennurum leikskólans Ægisborgar við Ægisíðu í Reykjavík var brugðið þegar þeir mættu í skólann í morgun. Þar höfðu veggjakrotarar látið gamminn geysa og sóðað út húsveggi, leiktæki og grindverk með kroti sínu. 

„Manni bregður við að mæta þessu að morgni,“ sagði Sigrún Birgisdóttir, leikskólastjóri á Ægisborg.

Ljóst er að krotararnir hafa verið að verki einhvern tíma um helgina frá því að skólastarfi lauk á föstudagskvöld. Sigrún telur að þetta sé versta útreið sem leikskólinn hefur orðið fyrir af hálfu veggjakrotara á hennar starfstíma í skólanum.

Veggjakrotið var þegar tilkynnt til lögreglunnar, enda kvaðst Sigrún ævinlega tilkynna slíkt athæfi til hverfislögreglunnar. Forráðamenn leikskólans sendu foreldrum nemenda bréf í morgun vegna veggjakrotsins. Þar eru foreldrar m.a. beðnir um að hafa augun opin ef þeir eiga leið hjá skólanum á kvöldin eða um helgar. 

Í bréfinu kemur einnig fram að auk krotsins, sem oftast hefur sést á gafli sem snýr að gangstíg við skólann, þurfi starfsfólk að tína rusl af skólalóðinni á hverjum degi. Þar á meðal dósir, vindlingastubba og annað rusl. Þar hafa fundist bjórdósir, brotnar flöskur og fleira drasl.

Sigrún sagði að hverfamiðstöð Reykjavíkurborgar á Njarðargötu fái það hlutverk að láta afmá veggjakrotið. 

Það er heldur ógeðslegt að setjast við þetta borð eftir …
Það er heldur ógeðslegt að setjast við þetta borð eftir krotið. Ljósmynd/Ægisborg
Grindverkin fengu ekki heldur að vera ókrotuð.
Grindverkin fengu ekki heldur að vera ókrotuð. Ljósmynd/Ægisborg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert