Lýsa yfir vanþóknun á háum afskriftum í bönkunum

Merki Landssambands framsóknarkvenna.
Merki Landssambands framsóknarkvenna.

Landssamband framsóknarkvenna lýsir yfir vanþóknun á þeim gríðarlega háu afskriftum sem fram hafa farið í bönkunum á lánum ákveðinna fyrirtækja á sama tíma og harkalega er gengið nærri almenningi sem glímir við gríðarlegan skuldavanda. Þetta kemur fram í ályktun sambandsins.

Þar kemur einnig fram að Landssamband framsóknarkvenna telji það einnig mjög ámælisvert að sum þessara fyrirtækja hafi greitt sér himinháan arð á sama tíma og þau hafa safnað gríðarháum skuldum.

Þá er ríkisstjórn Íslands og þingheimur hvattur til þess að hlusta á þau alvarlegu skilaboð sem almenningur sé að senda um raunverulegar breytingar í stjórnmálum á Íslandi þannig að sátt geti náðst í samfélaginu.

Þá er lagt til að skipuð verði þjóðstjórn til að ráðast í neyðaraðgerðir, fara í þær lýðræðislegu breytingar sem þurfi að ljúka og síðan verði boðað til kosninga.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert