Mikilvægt að almenningur beri traust til ákæruvaldsins

mbl.is/G.Rúnar

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari segir að það sé háalvarlegt mál að því sé haldið fram að á opinberum vettvangi að embættismenn ríkissaksóknara vinni markvisst gegn framgangi kynferðisbrota og að brotaþolum kynferðisbrota „sé ekki trúað“ í réttarkerfinu, sem sé ein „svikamylla“.

„Þá eru það ekki sannfærandi viðbrögð að krefjast afsagnar þeirra sem gera tilraun til þess að ræða málefnalega um málaflokkinn,“ segir Valtýr í svarbréfi sem hann hefur sent dóms- og mannréttindaráðuneytinu.

Ráðuneytið óskaði eftir skýringum í kjölfar blaðagreinar sem birtist 1. október sl. í DV undir yfirskriftinni „Hann verður að hafa ásetning.“

Í upphafi bréfs ráðuneytisins, sem er dagssett 7. október, er vísað til þess sem í blaðagreininni segir, þ.e. að ríkissaksóknari hafi veitt blaðamanni DV aðgang að lögregluskýrslum í nauðgunarmálum sem felld hafi verið niður hjá embætti ríkissaksóknara. Er óskað skýringa á þessu og spurt hvernig það fari heim og saman við reglur ríkissaksóknara um aðgang að gögnum sakamála sem sé lokið auk laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.  

„Eins og bent hefur verið á er unnið hjá lögreglu og ákæruvaldi eftir lögum og ákveðnum reglum. Ég get fullyrt að allt þetta fólk vinnur málefnalega og tekur það alvarlega ef mál sem þeir trúðu á tapast fyrir dómi. Sá látlausi áróður um að það sé þeirra sök að ekki fáist fleiri sakfellingar fyrir dómi er því sérlega ósanngjörn,“ segir Valtýr m.a. í svarbréfinu.

Hann bendir á að verulegur árangur hafi náðst í rannsókn og meðferð kynferðisbrota á síðustu árum. Engin ástæða sé til annars en að halda að sú þróun muni halda áfram.

Það sé nauðsynlegt að opin og heiðarleg umræða geti farið fram um þessi mál enda snerti úrlausnarefnið samfélagið allt.

Þá sé mikilvægt að almenningur beri traust til ákæruvaldsins í landinu. Það verði m. a. gert með því að birta upplýsingar og gefa skýringar á vinnubrögðum ákæruvaldsins.

„Opin stjórnsýsla, þar sem allar réttar upplýsingar liggja fyrir, stuðlar að bættu réttarkerfi og hvetur jafnframt viðkomandi til að gera betur. Miðlun allra slíkra upplýsinga getur ekki, að mati ríkissaksóknara, verið til þess fallin að rýra traust þolenda á réttarvörslukerfinu heldur þvert á móti svo að svarað sé beint spurningu ráðuneytisins að þessu leyti. Skiptir þá ekki öllu máli hvort sú umræða fari fram í fjölmiðlum eða annars staðar.“

Þá telur Valtýr nauðsynlegt að dómsmála- og mannréttindaráðherra skipi þverfaglega nefnd þeirra sem að þessum málum koma, þ.e. lögreglu, neyðarmóttöku, ríkissaksóknara, lögmanna og fulltrúa Stígamóta, undir formennsku prófessors til að fara yfir tölfræði, vinnuferla og vinnubrögð auk þess að athuga hvort lagabreytinga sé þörf á þessu sviði. Þá sé það athugað hvernig efla megi með markvissum hætti forvarnarstarf í málaflokknum. 

Svarbréfið á vef ríkissaksóknara.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari.
Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert