Hagvöxtur eykst vegna framkvæmda í Straumsvík

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík.

Greiningardeild Arion banka áætlar, að stækkun álversins í Straumsvík og virkjunarframkvæmdir henni tengdar, þýði viðbótarhagvöxt um 1% á næsta ári.

Fram kemur í markaðspunktum bankans, að þó fyrirhugaðar framkvæmdir séu ekki umfangsmiklar samanborið við fyrri stóriðjutímabil þá séu þær mikilvægar við hið lága fjárfestingastig sem nú ríki og nái að vera nálægt helmingi af heildarfjárfestingu í landinu á þessu ári.

Slakinn í íslenska hagkerfinu er einn sá mesti sem mælst hefur frá stríðslokum seinni heimstyrjaldar. Greiningardeildin segir, að forsenda þess að hagvöxtur myndist á Íslandi sé að fjárfesting atvinnulífsins nái sér á strik. Flest bendi til þess að veikur efnahagsbati sé framundan þar sem það muni taka tíma fyrir efnahagslífið að komast aftur á flug. Tafir á orkutengdum framkvæmdum hafi þegar sett strik í reikninginn og muni líklega gera það áfram.

„Á meðan atvinnulífið nær ekki að rétta úr kútnum munu heimilin einnig eiga í basli, enda forsenda hagvaxtar að atvinnulífið nái sér á strik. Neyslustig heimila verður því áfram í lágmarki á næstu árum og atvinnuleysi hátt," segir bankinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka