Vilmundur sammála Gylfa um margt

Vilmundur Jósefsson.
Vilmundur Jósefsson. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Ég get ekki séð annað en ég sé sammála Gylfa varðandi samstarfið við stjórnvöld í atvinnumálum,“ segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins um ræðu Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, við setningu ársfundar sambandsins í dag.

„Við erum mjög samstíga hvað þetta varðar og það sést best á að báðir aðilar sögðu sig frá sáttmálanum fræga og gáfumst alveg upp á honum þar sem ekki var staðið við það sem skrifað hafði verið undir.

Það sama gildir um fullyrðingu Gylfa um að ákveðin hópur innan ríkisstjórnarinnar virðist hafa tekið öll atvinnumál í gíslingu og stendur þvert í vegi fyrir því að einhverjar framkvæmdir komist áfram,“ segir Vilmundur.

Gylfi talaði einnig um að það sem ekki yrði sótt með friði verði sótt með öllum úrræðum sem verkalýðshreyfingin búi yfir.

„Það liggur alveg á tæru að það er ákveðin vantrú á stjórnvöldum og hvorki SA né ASÍ bera í rauninni traust til stjórnvalda. Mín von er að sjálfsögðu sú að við getum komist að endanlegri og góðri niðurstöðu í friði og spekt og ég trúi því þangað til annað kemur í ljós.

Til þess að ná samningum sem eru á eðlilegum nótum þarf ákveðnar stjórnvaldsaðgerðir og vonandi kemst einhver hreyfing á þessi mál, en því miður er ekkert að gerast og það er algjörlega óásættanlegt að við skulum enn vera með 12 til 13 þúsund manns á atvinnuleysisskrá og þeim eigi jafnvel eftir að fjölga

Hins vegar ætti öllum að vera ljóst að það er ekkert til okkar að sækja í beinum launahækkunum. Ég get ekki séð það og held að allir sem horfi á íslenskt atvinnulíf sjái það,“ sagði Vilmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert