Stefnt að hærri fjárhagsaðstoð

Fjöldi fólks þarf á aðstoð að halda vegna fátæktar.
Fjöldi fólks þarf á aðstoð að halda vegna fátæktar. Ernir Eyjólfsson

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram tillögu um hækkun fjárhagsaðstoðar á fundi Velferðarráðs í dag. Tillagan felur m.a. í sér sérstaka styrki til barnafjölskyldna við upphaf skóla og vegna jólahalds, auk desemberuppbótar til þeirra sem hafa fengið fulla fjárhagsaðstoð í 3 mánuði eða lengur.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað en meirihluti velferðarráðs mun leggja  hækkunina og aukin útgjöld vegna hennar fyrir borgarráð. Borgarráð þarf að samþykkja breytinguna samhliða fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár. Breytingin kallar á aukaútgjöld sem nema 350 milljónum kr. á ársgrundvelli.

Fyrsta skrefið til að rétta hlut þeirra verst settu

Með tillögunni hækka grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar frá og með 1. janúar 2011 og komið verður betur á móts við þarfir barnafjölskyldna í borginni, að sögn Bjarkar Vilhelmsdóttur formanns velferðarráðs. Verið sé að koma á móts við þá Reykvíkinga sem eru allra verst settir. „Þessi breyting mun þó ekki koma í veg fyrir fátækt í Reykjavík. Þar þarf margt að koma til og samhent átak ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Reykjavíkurborg vill gera sitt gangvart þeim hópi sem hún ber ábyrgð á." Segir Björk að þessi breyting verði kannski fyrsta skrefið sem tekið verður í samfélaginu til að rétta hlut þeirra  verst settu. 

Grunnfjárhæð einstaklings sem rekur heimili hækkar úr 125.540 kr. í 149.000 kr. eða um 19%. Fjárhagsaðstoð til hjóna hækkar úr 200.864 kr. í 223.500 kr. sem er 11% hækkun. Einstaklingur fær til ráðstöfunar 137.747 kr. þar sem skattur af grunnfjárhæðinni er 11.253 kr. Hjón fá hins vegar til ráðstöfunar fullar 223.500 kr. vegna tvöfalds persónuafsláttar. Grunnfjárhæð einstaklings sem býr í foreldrahúsum verður helmingur af fullri aðstoð og er upphæðin nánast sú sama og áður var 74.500 kr. á mánuði. Grunnfjárhæð til þeirra sem ekki reka eigið heimili verður áfram óbreytt kr. 125.540 á mánuði.

Barnafjölskyldur munu samkvæmt tillögunum fá enn frekari stuðning frá 1. janúar 2011 því lagt er til að við skólabyrjun að hausti ár hvert fái foreldrar með fjárhagsaðstoð 12.640 kr. styrk fyrir hvert barn. Þá verður desemberuppbót vegna barna, eins og sú sem samþykkt var í dag og nær til næstkomandi mánaðar, réttindabundin frá og með næsta ári.

Einnig var lögð fram tillaga og henni frestað um að 1. desember 2010 verði foreldrum sem fá fjárhagsaðstoð nú í desember greidd sérstök desemberuppbót vegna hvers barns 12.640 kr.. Þá er lagt til að rýmka heimild til desemberuppbótar þannig að þeir sem fengið hafa fulla fjárhagsaðstoð í 3 mán. eða lengur fái desemberuppbót frá Reykjavíkurborg sem nemur 31.385 kr., en skilyrðið var áður 6 mánuðir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert