Skoða framtíð Fasteignar

Háskólinn í Reykjavík er meðal eigna Fasteignar ehf.
Háskólinn í Reykjavík er meðal eigna Fasteignar ehf. mbl.is/Ernir

Árni Sigfússon, stjórnarformaður Fasteignar ehf. segir að stjórn félagsins hafi ráðið tvo rekstrarráðgjafa til að gera tillögur um þá valkosti sem félagið standi frammi fyrir. Þeir séu m.a. „að skoða rekstrarform til framtíðar.“

„Stjórnin ákvað á síðasta stjórnarfundi að fá tvo rekstrarráðgjafa að gera úttekt á stöðunni og skoða valkosti fyrir félagið. Það er m.a. verið að skoða rekstrarform til framtíðar, leita leiða til að lækka lánakostnað, draga úr kostnaði við rekstur félagsins og þar með hefur hluti af ráðningarsamningum starfsmanna verið sagt upp. Breytt rekstrarform getur leitt af sér endurskoðun ráðningarsamninga. Þetta er allt gert með fyrirvara um samþykki stjórnar,“ sagði Árni.

Stjórn Fasteignar kemur saman til fundar í næstu viku og Árni sagði að þá yrði lögð fram áfangaskýrsla rekstrarráðgjafanna.

Árni var spurður hvort starfsmenn sem fengu uppsagnarbréf yrðu endurráðnir á nýjum kjörum. „Það kann vel að vera,“ sagði Árni og bætti við að hafa þyrfti í huga að engar líkur væru á að Fasteign færi út í nýjar fjárfestingar á næstunni og það kallaði á breytingar á umfangi félagsins. Þess vegna þyrfti félagið að hafa svigrúm til að skoða starfsmannamálin.

Bæjarráð Reykjanesbæjar ræddi málefni Fasteignar ehf. í morgun. Árni sagðist á fundinum hafa upplýst bæjarráð um þá vinnu sem væri í gangi á vegum stjórnar Fasteignar. 

Skoða kosti varðandi rekstrarform

Í fréttatilkynningu frá Bergi Haukssyni, framkvæmdastjóra Fasteignar, segir:

„Stjórn Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. ákvað á síðasta stjórnarfundi að fá tvo rekstrarráðgjafa til að vinna að úttekt og skoðun valkosta fyrir félagið.  Þessi úttekt felur í sér að skoða kosti varðandi rekstrarform félagsins, leita leiða til að lækka lánakostnað og draga úr kostnaði við rekstur félagsins. 
 
Vegna þessarar úttektar hefur hluta af ráðningarsamningum starfsmanna verið sagt upp, þar sem breytt rekstrarform getur leitt af sér endurskoðun ráðningarsamninga.  Uppsagnir eru þó allar með fyrirvara um samþykki stjórnar. 
 
Félagið er í skilum við alla lánardrottna.  Næsti stjórnarfundur er 16. nóvember og kynna þá rekstrarráðgjafarnir skýrslu sína. Stjórn félagsins mun stjórn í framhaldi af því taka ákvörðun um næstu skref. “

Gunnlaugur Grettisson, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyjar og stjórnarmaður í Fasteign, segir í samtali við Eyjafréttir í dag, að til þess að Vestmannaeyjabær sé til í að skoða breytingar á félaginu þurfi að liggja fyrir skýr ávinningur fyrir bæjarfélagið.

Eigendur og leigutakar Fasteignar eru m.a. Álftanes, Garðabær, Grímsnes- og Grafningshreppur, Norðurþing, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Fjarðabyggð, Ölfus, Vestmannaeyjar, Vogar, Háskólinn í Reykjavík og fjármálastofnanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert