FÍ semur við grænlensku landsstjórnina

Ilulissat á vesturstönd Grænlands.
Ilulissat á vesturstönd Grænlands.

Talsverð umræða hefur verið á Grænlandi síðustu daga um samning, sem Flugfélag Íslands gerði í vetur við grænlensku landsstjórnina. Samkvæmt samningnum fá grænlensk stjórnvöld afsláttarkjör hjá Flugfélagi Íslands og eykst afslátturinn eftir því sem viðskiptin eru meiri.  

Grænlandsflug missir við þetta spón úr aski sínum og hafa grænlenskir fjölmiðlar haft eftir forsvarsmönnum fyrirtækisins, að þetta muni leiða til verri þjónustu við íbúa í strandhéröðum.

Grænlenskir þingmenn hafa einnig gagnrýnt samninginn. Þannig hefur grænlenska útvarpið eftir Aqqaluaq B. Egede, sem situr í fjárlaganefnd þingsins fyrir IA, að landsstjórnin verði að tryggja grænlensk störf til til að tryggja að Grænland öðlist á endanum fullt sjálfstæði. Því sé það slæm hugmynd að  gera samninga við erlend flugfélög.  

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir við vefinn sermitsiaq.ag, að samningurinn sé eðlilegt framhald af auknum umsvifum flugfélagsins á Grænlandi og fljúgi nú meðal annars allt árið um kring til Nuuk. Segist hann ekki útiloka að samningurinn við landsstjórnina leiði til þess að flugfélagið muni fjölga flugferðum milli Nuuk og Reykjavíkur. 

Árni segir að markmið félagsins sé að gera Ísland að einskonar miðstöð millilandsflugs fyrir Grænland þannig að eðlilegt verði að fljúga frá Nuuk til Reykjavíkur eða Keflavíkur.  

Þá segir Árni að Flugfélag Íslands sé ekki að stela viðskiptum frá Grænlandsflugi heldur bjóða upp á annarskonar þjónustu. Ætli stjórnmálamenn og embættismenn til Kaupmannahafnar sé enn hagstæðast fyrir þá að fara með Grænlandsflugi en ætli þeir til dæmis til Bandaríkjanna sé betra að fara fyrst til Reykjavíkur og síðan áfram með Icelandair.

Mads B. Christensen, framkvæmdastjóri Grænlandsflugs, segir við grænlenska útvarpið að með þessum samningi verði grænlenska landsstjórnin af miklum skatttekjum. Grænlenska ríkið á 25% í Grænlandsflugi, landsstjórnin fer með 37,5% hlut og SAS 37,5%. 

Palle Christiansen, fjármálaráðherra, segir hins vegar að landsstjórnin spari mikið fé með samningnum og einnig bjóði Flugfélag Íslands upp á mun meiri sveigjanleika. Hann leggur þó áherslu á að ekki sé um að ræða einokunarsamning heldur sé ráðuneytum og stofnunum í sjálfsvald sett við hvaða flugfélag þau skipta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert