Samráð um þjóðgarða mikilvægt

Dr. Fredrik Widemo sagði miklvægt að stjórnvöld hafi samráð við …
Dr. Fredrik Widemo sagði miklvægt að stjórnvöld hafi samráð við hagsmunasamtök um þjóðgarða. mbl.is/GE

Dr. Fredrik Widemo, dýravistfræðingur, hvetur Íslendinga til að vera vel á verði ætli þeir að ganga í Evrópusambandið (ESB). Hann hvetur einnig til víðtæks samráðs um þjóðgarða og að hagsmunasamtök fái að koma að borðinu.

Widemo hélt fyrirlestur í Þjóðmenningarhúsinu í dag um nýtingu og notkun þjóðgarða. Hann er starfsmaður Sænska veiðimannasambandsins (Svenska Jägareförbundet) sem eru regnhlífarsamtök 26 svæðisbundinna félaga skotveiðimanna þar í landi. Í samtökunum eru um 195.000 félagsmenn en skotveiðimenn í Svíþjóð eru um 300.000 talsins.

Hann vék nokkrum sinnum að þeim breytingum sem fylgdu inngöngu Svíþjóðar í ESB. Hann sagði að Íslendingar þyrftu að vera vel á verði gagnvart því að semja um undanþágur áður en gengið er í sambandið. Eftir inngöngu geti það reynst torvelt eða ómögulegt.  Hann taldi næsta víst að ESB myndi vilja banna refaveiðar hér og sagði að ESB hafi friðað hrafninn í Svíþjóð.

Fyrirlesturinn var haldinn í boði Skotveiðifélags Íslands (Skotvís). Í tilkynningu Skotvís fyrir fundinn sagði m.a.:

„Nú er verið að vinna frumvarp til laga um endurskoðun náttúruverndarlaga og laga um vernd friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þá liggja á borði ráðherra tillögur að verndaráætlun um Vatnajökulsþjóðgarð. Öll þessi lög skipta verulegu máli fyrir útivistarfólk. Nú þegar eru vísbendingar um að lagt verði til að veiðitími verði styttur í einhverjum mæli og að hefta ferðafrelsi á miðhálendinu.“

Widemo fjallaði um langa reynslu Svía af vernd landsvæða, bæði í þjóðgörðum, friðlöndum og svæðum með sérstaka vernd. Einnig hvaða stöðu veiðar hafa á þessum verndarsvæðum.

Almennt eru veiðar bannaðar í sænskum þjóðgörðum en þó eru víða gerðar undantekningar frá þeirri reglu. Þá eru veiðarnar ýmist leyfðar í tilteknum hluta þjóðgarðanna eða á tilteknum tíma. Þannig eru dæmi um að veiðar séu bannaðar um helgar, þegar helst er von á ferðamönnum, en leyfðar á virkum dögum. Meiri hömlur eru á veiðum í þjóðgörðum nærri þéttbýliskjörnum en lengra frá. Eins geta verið sett takmörk við ákveðnum veiðiaðferðum, t.d. veiðar með hundum eða skotveiðar úr turnum.

Nokkuð önnur skilgreining er á þjóðgörðum í Noregi en í Svíþjóð og þar er víða leyft að veiða í þjóðgörðum. Finnar hafa einnig sinn hátt á veiðum í þjóðgörðum og þar er frekar leyft að veiða í þjóðgörðum í norðurhluta landsins en suðurhlutanum. Eftir því sem sunnar dregur í Evrópu þess algengara verður að veiðar séu alveg bannaðar í þjóðgörðunum.

Widemo lagði áherslu á að allir hagsmunaaðilar séu hafðir með í ráðum um ákvarðanatöku, t.d. varðandi veiðar, í þjóðgörðum. Widemo sagði að almenna tilhneigingin í þessum efnum í Evrópu sé til aukins samráðs á milli allra aðila og þess að raunhæfra lausna sé leitað. Hann hvatti bæði stjórnvöld og hagsmunasamtök til að sýna sveigjanleika. Þá hvatti hann hagsmunasamtök og stjórnvöld til að ræða málin, ekki endilega rökræða, heldur tala saman og kynnast sjónarmiðum hvors annars.

Widemo sagði að stjórnun þjóðgarða eigi að miðast við vernd, meðal annars vernd líffræðilega fjölbreytni. Hann benti t.d. á þann vanda sem getur fylgt mikilli fjölgun einstakra dýrategunda og nefndi m.a. heiðagæsir í því sambandi. Veiðar þurfa því ekki að vera á skjön við verndarmarkmiðin sé þeim réttilega stjórnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert