Samningar auka verðbólgu um 0,5%

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir fylgjast með Bjarna Benediktssyni á …
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir fylgjast með Bjarna Benediktssyni á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að eftir því sem Hagstofan komist næst yrðu áhrif væntanlegra kjarasamninga á verðlagið þau að verðbólga verði 0,5% meiri á samningstímanum en ella.

Jóhanna var að svara fyrirspurn frá Bjarna Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, sem vísaði til þess að Seðlabankinn hefði lýst efasemdum um að þær launahækkanir, sem nú sé verið að semja um, væru ekki raunhæfar miðað við stöðu hagkerfisins og kynnu að leiða til aukinnar verðbólgu. Spurði Bjarni hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera til að auka hagvöxt svo efnahagskerfið gæti staðið undir þessum launahækkunum.

Jóhanna sagði, að vissulega væri um að ræða verulegar kauphækkanir, sem kæmu misjafnlega niður á atvinnugreinum. Menn hefðu þannig áhyggjur af áhrifum kauphækkananna á einstakar greinar, einkum verslun sem standi nokkuð höllum fæti.

Allt færi þetta þó eftir því hvernig ganga muni að fylgja eftir fjárfestingaráformum sem tengjast kjarasamningunum, þeim að fjárfestingar aukist úr 13% í 20% af landsframleiðslu. Gangi það eftir megi búast við 0,5% meiri verðbólgu og 6-8% meiri kaupmætti að jafnaði á samningstímanum, að hagvöxtur verði 2-3% á þessu ári og 4-5% á ári á næstu tveimur árum. 

Bjarni sagði, að þegar Seðlabankinn talaði um óraunhæfar launahækkanir vildi forsætisráðherra tala um Hagstofuna. Stóra vandamálið í íslensku efnahagslífi, væri að ríkisstjórnin hefði ekki svarað því hvar í atvinnulífinu hagvöxturinn eigi að myndast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert