Gengur berlega gegn stjórnarskrá

Ólöf Nordal gagnrýndi tillögu um breytta meðferð tekna af veiðigjaldi …
Ólöf Nordal gagnrýndi tillögu um breytta meðferð tekna af veiðigjaldi í frumvarpi sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Ómar

 „Getur það verið að ráðherranum sé alvara með að leggja fram frumvarp sem svo berlega gengur gegn stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?“ spurði Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í andsvari við framsöguræðu sjávarútvegsráðherra um frumvarp um stjórn fiskveiða á Alþingi í dag.

Ólöf benti á að frumvarpinu fylgdi fáheyrð umsögn fjárlagaskrifstofu þar sem lýst er miklum áhyggjum af því að með frumvarpinu sé gengið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár varðandi úthlutun tekna af veiðigjaldinu.

Spurði hún hvernig ráðherrann ætlaði að bregðast við þessari umsögn fjárlagaskrifstofunnar. 

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra sagðist alls ekki vera sammála því að þetta frumvarp gengi berlega gegn stjórnarskrá. „Hins vegar er þarna pólitísk stefnubreyting hvað þetta varðar. Menn geta velt fyrir sér jafnræðismálum á ýmsan hátt. Menn geta t.d. velt því fyrir sér, er eitthvað jafnræði í því að íbúar í ákveðnum landshlutum þurfa að borga miklu hærra raforkuverð heldur en íbúar í öðrum landshlutum,“ sagði hann.

Í frumvarpinu sé lagt til að staða sjávarbyggðanna verði virt, að sögn hans. Kom fram í máli Jóns að frumvarpið hefði gengið til umsagnar í forsætisráðuneytinu áður en það var lagt fram en hann sagði einnig að vel mætti skoða útfærslu þessa ákvæðis. 

Ólöf kom aftur í ræðustól og gagnrýndi svör ráðherrans, að bera saman raforkutaxta við skattlagningu þar sem úthluta ætti skattfé landsmanna með mjög tilviljunarkenndum hætti, eins og boðað væri í frumvarpinu.  Sagði hún að ráðherrann væri kominn út á hálan ís gagnvart jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

 Ráðherra nefndur 32 sinnum í frumvarpinu

Sjávarútvegsráðherra er nefndur 32 sinnum í heimildarákvæðum í sjávarútvegsfrumvarpinu sem nú er til umræðu á Alþingi. Einar K. Guðfinnsson Sjálfstæðisflokki benti á þetta í andsvari við framsöguræðu sjávarútvegsráðherra. 

„Þetta eru sjö efnisgreinar, þannig að nafn hæstvirts ráðherra kemur þar við sögu að jafnaði tæplega fimm sinnum í hverri einustu efnisgrein þessa frumvarps. Hér með held ég að hæstvirtur ráðherra hafi slegið Íslandsmet ef ekki heimsmet,“ sagði Einar. Þetta væri í samræmi við það sem viðgengist hefði að undanförnu að meirihluta þingsins þyrfti að láta það yfir sig ganga að mikið vald væri fært frá löggjafanum til framkvæmdavaldsins. Nú feti ráðherra sig áfram á þeirri braut. 

Jón Bjarnason sagði að ástæða þess að ráðherra væri oft nefndur í frumvarpinu væri sú að þar væri verið að vísa til reglugerða um framkvæmdina.

Ráðherrann lagði áherslu á það við umræðurnar að hann hefði þá bjargföstu trú að það væri grundvallaratriði fyrir þjóðina og sjávarútveginn  að menn stæðu vörð um sjávarbyggðirnar í landinu. 

 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert