Stefnir í töluverðan niðurskurð

Sveitarfélögin hafa horft mikið til grunnskólanna þegar kemur að niðurskurði og hagræðingu í fjármálum. Stefna mörg þeirra á töluverðan niðurskurð innan málaflokksins að því er fram kemur í nýrri könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fram kemur að niðurskurðurinn sé ekki einungis bundinn við næsta skólaár því það sé greinilegt að grunnskólar landsins hafi mátt þola mikinn niðurskurð og sparnað á seinustu árum.

Misjafnt sé á hvaða sviðum sveitarfélögin séu að skera niður en meirihluti sveitarfélaganna muni þó skera eitthvað niður á næsta skólaári.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga segir dagana 19.-31. maí hafi SÍS framkvæmt óformlega könnun hjá sveitarfélögum um hagræðingaraðgerðir í rekstri grunnskóla. Alls svöruðu 26 sveitarfélög könnuninni og í þeim sveitarfélögum búa um 84% landsmanna. 

Segir að það sé athyglisvert að sjá hversu hátt hlutfall svarenda hyggist skoða samvinnu eða sameiningu við aðrar stofnanir eða hafi þegar farið út í slíkar framkvæmdir, alls ríflega 70%.

„Hins vegar svara tæp 70% því til að ekki standi að draga úr sérkennslu og um 84% að ekki muni koma til samdráttar í sérfræðiþjónustu. Þá kemur einnig fram í niðurstöðum  að ýmist hefur kennslustundum nú þegar verið fækkað (32%) eða í farvatninu er að fækka þeim (32%). 50% þeirra sem svöruðu hafa þegar aukið samkennslu en innan við 40% sameinað bekki. Þá hefur stöðugildum verið fækkað hjá um 40% sveitarfélaga sem svöruðu og tæp 40% svara því til að slíkt standi til á næsta skólaári og alls svara tæp 90% aðspurðra því til að dregið hafi verið úr yfirvinnu eða slík aðgerð framundan,“ segir á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert