Runnu á brugglyktina

Bruggverksmiðjan, sem fannst í Kópavogi í morgun.
Bruggverksmiðjan, sem fannst í Kópavogi í morgun. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann í morgun fullkomna bruggverksmiðju í atvinnuhúsnæði í Kópavogi. Einn maður var handtekinn og játaði hann að hafa komið verksmiðjunni upp. Ekki er talið að starfsemin hafi staðið lengi yfir.

Að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, fundust fimm 200 lítra tunnur og stórt suðutæki af fullkominni gerð. Um 800 lítrar af gambra voru í tunnunum og nokkrir tugir lítra af landa. Ómar Smári sagði aðspurður, að glöggur lögreglumaður hefði runnið á lyktina af brugginu.

Ómar Smári sagði, að maðurinn, sem handtekinn var, hefði viðurkennt að hafa leigt húsnæðið og sett verksmiðjuna upp. Talið er að framleiðslan hafi verið á byrjunarstigi. Er málið talið upplýst.

Lögregla hefur ekki orðið vör við mikið af landa í umferð á undanförnum mánuðum. Ómar Smári sagði, að talið sé að landaframleiðsla sé frekar lítil og þá staðbundin. Hins vegar aukist hún oft á haustin þegar framhaldsskólar hefjast og menn geri sér vonir um að hægt sé að selja unglingum landa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert