Krefja Ögmund um fjórar milljónir

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Ernir

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra greinir frá því á heimasíðu sinni að Vítisenglarnir og einn forsprakki þeirra krefji sig samtals um fjórar milljónir kr. í skaðabætur vegna ummæla sem þeir telji vera „ósönn og óþarflega meiðandi“.

Líkt og fram hefur komið hafa vélhjólasamtökin stefnt Ögmundi fyrir meiðyrði. Einnig Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og íslenska ríkinu. Stefnan var lögð fram í gær, bæði í nafni samtakanna og Einars Marteinssonar, forseta Vítisengla.

„Í gærkvöldi var mér borin stefna á heimili mitt frá Hells Angels og einum forsprakka þeirra hér á landi þar sem samtökin annars vegar og einstaklingurinn hins vegar krefja mig um samtals fjórar milljónir króna, tvær milljónir króna - hvor um sig - í skaðabætur fyrir ummæli sem þeir telja vera „ósönn og óþarflega meiðandi",“ skrifar Ögmundur.

Þá segir hann að eftirfarandi sé úr stefnunni: 

„Stefnendur krefjast þess báðir að eftirfarandi ummæli í staflið A-E verði dæmd dauð og ómerk.

•1.       Ummæli á bloggsíðu stefnda, http://www.ogmundur.is/, í pistli með fyrirsögnina  „Ábyrgð fjölmiðla“, birt á síðunni 7 mars 2011.
•A.      „þá er verið að gefa mönnum sem af ásetningi stunda glæpsamlega starfsemi tækifæri til að villa á sér heimildir“
•B.      „Nákvæmlega þetta ástunda samtök á borð við Hells Angels; skapa falsímynd af sjálfum sér útávið á meðan ofbeldi er stundað í felum“
•C.      „Þegar fjölmiðlar birta fegrunarviðtöl við ofbeldismenn finnst mér ástæða til að staldra við“
•D.      „En þeir sem orðið hafa fyrir ofbeldi eða ógn um ofbeldi af hendi þessa hóps eða annarra ámóta sjá ekkert skondið við þetta“

•2.        Ummæli sem birtust í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 3. mars 2011 kl. 22.00.
•E.       „Við ætlum ekki að láta það gerast að Ísland verði gert að einhvers konar mafíulandi sem er í heljargreipum glæpahópa“.

Ögmundur hefur sagt að hann standi við þau orð sín að vélhjólasamtökin Hells Angels séu skipulagðir glæpahópar.

Heimasíða Ögmundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert