Jón Ásgeir sakfelldur í fimm liðum

Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson verjandi hans.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson verjandi hans. mbl.is

Jón Ásgeir Jóhannesson var sakfelldur í fimm ákæruliðum í skattahluta Baugsmálsins en dómur féll í málinu í dag. Tryggvi Jónsson var sakfelldur í fjórum ákæruliðum og Kristín Jóhannesdóttir einum. Sýknað var í fjórum  ákæruliðum á hendur Jóni Ásgeiri, einum á hendur Tryggva og einum á hendur Kristínu en einnig að hluta í tveimur. 

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag var refsingu á hendur þremenningunum frestað og fellur hún niður haldi þau almennt skilorð í eitt ár. Þar var helst litið til þess að óréttlætanlegur dráttur hefur orðið á málinu og að skattyfirvöld hafa þegar lagt 25% álag á hækkun skattstofna hjá þeim.

Þegar ákæruliðirnir eru skoðaðir sést að Jón Ásgeir er meðal annars sakfelldur fyrir að hafa vantalið fjármagnstekjur af hlutareign sinni í Gaumi ehf., einnig fyrir að vantelja tekjur vegna nýtingar kaupréttar af hlutabréfum í Baugi hf. og vegna rangra skilagreina í rekstri Baugs á árunum 1998, 1999, 2000, 2001 og 2002.

Hann var hins vegar sýknaður af því að vantelja tekjur vegna skattskyldra bifreiðahlunninda, og af því að vantelja tekjur vegna greiðslu Baugs hf. á líftryggingaiðgjaldi á skattframtölum árin 2000, 2001, 2002 og 2003. Þá var hann sýknaður af því að hafa vantalið fjármagnstekjur vegna sölu hlutabréfa í Baugi.

Tryggvi Jónsson var sakfelldur fyrir að vantelja launatekjur á sakttframtölum, árin 1999, 2000, 2001 og 2002. Þá var hann sakfelldur vegna rangra skilagreina í rekstri Baugs árið 2002. Hann var hins vegar, eins og Jón Ásgeir, sýknaður af því að vantelja tekjur vegna greiðslu Baugs á líftryggingariðgjaldi.

Dómurinn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert