Friðarferli í gíslingu

Össur Skarphéðinsson ásamt Ryiad al-Maliki.
Össur Skarphéðinsson ásamt Ryiad al-Maliki. mbl.is/Golli

Samningaferlið milli Ísraela og Palestínumanna er í blindgötu og mun verða það svo lengi, sem ekki verður breyting á fyrirkomulaginu. Þetta sagði Ryiad al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu, á opnum fundi í Norræna húsinu síðdegis í dag.

„Fyrir tuttugu árum ákváðu Palestínumenn að taka þátt í ráðstefnunni í Madríd,“ sagði al-Maliki. „Síðan þá höfum við tekið þátt af fullum krafti í samningaviðræðum, sem átti að lykta með samningi við Ísrael sem myndi leyfa stofnun sjálfstæðs ríkis.“

Hann sagði að tuttugu árum síðar gæti hann ekki sagst vongóður um að viðræðurnar skiluðu friði. „Ferlið hefur tekið okkur öll í gíslingu,“ sagði al-Maliki og bætti við að það leyfði hvorki árangur né niðurstöðu vegna ójafnræðisins milli samningamanna. Annars vegar væri hernámsríkið, hins vegar hinir hernumdu. Án þriðja aðila til að skakka leikinn næðist aldrei niðurstaða.

Al-Maliki fagnaði á fundinum ákvörðun Íslendinga um að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Utanríkisráðherrann er á Íslandi í tilefni af þessari ákvörðun og í morgun staðfestu hann og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra með formlegum hætti upptöku stjórnmálasambands milli Íslands og Palestínu í Þjóðmenningarhúsinu. „Ég vona að þessi ákvörðun muni verða til þess að önnur lönd á þessum slóðum geri slíkt hið sama,“ sagði hann og vísaði meðal annars til hinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. „Ég veit að ásetningurinn er til staðar, en hins rétta tíma er beðið.“

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Golli
Ryiad al-Maliki. Mynd fengin af vef Wikipedia.
Ryiad al-Maliki. Mynd fengin af vef Wikipedia.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert