Mörg framboð til marks um óánægju

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu áætlaði að 8.000 manns hafi mótmælt á …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu áætlaði að 8.000 manns hafi mótmælt á Austurvelli í október 2010. Allt stefnir í að Búsáhaldabyltingin ali af sér fjölda nýrra framboða. Ómar Óskarsson

Sú staða hefur sjaldan komið upp í íslenskum stjórnmálum að níu framboð bjóði fram til alþingiskosninga. Ómar H. Kristmundsson, prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, segir að fjöldi framboða beri óánægju kjósenda vitni.

Eins og rakið hefur verið á mbl.is í dag undirbýr Lilja Mósesdóttir stofnun nýs framboðs sem líti dagsins ljós síðar á árinu. Þá boðuðu talsmenn Lýðfrelsisflokksins og Hægri grænna framboð síðar í ár, eða í tæka tíð fyrir þingkosningarnar á næsta ári.

Loks er búist við framboði Guðmundar Steingrímssonar og þá ef til vill í samvinnu við Besta flokkinn. Samanlagt gera þetta fjögur framboð sem myndu þá bætast við flokkana fimm sem nú eiga sæti á Alþingi, Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna, Vinstri græna, Framsóknarflokkinn og Hreyfinguna.

Vitnar um óánægju kjósenda

- Hvað segir þetta um þá stöðu sem uppi er í íslenskum stjórnmálum?

„Það er auðvitað öllum ljóst að það hefur verið óánægja í kjölfar efnahagshrunsins með hið hefðbundna fjórflokkaskipulag íslenskra stjórnmála og að það sé mat manna að það sé eftirspurn eftir nýjum stjórnmálahreyfingum. Síðan bætist við óánægja innan þessara flokka með stefnumál og áherslur. Það virðist vera fyrst og fremst innan ríkisstjórnarflokkanna sem slík óánægja virðist ætla að leiða til stofnunar til nýrra stjórnmálahreyfinga.“

Að stofni til fylgi frá vinstri

- Skiptist óánægjufylgið jafnt á milli flokka?

„Augljóst er að innan Hægri grænna er að finna fyrrverandi sjálfstæðismenn sem hafa þá væntanlega verið ósáttir við stefnu flokksins. Síðan vitum við að það er óánægja innan flokkanna eftir breytingarnar á ríkisstjórninni sem leiðir til þess að menn fara að hugsa sinn gang. Ef við lítum svo á söguna hafa nýir flokkar sem hafa verið stofnaðir oftar en ekki verið á vinstri vængnum og kannski nálægt miðjunni. Við höfum ekki hefð fyrir því á Íslandi að hér séu fleiri en einn hægri flokkur.

Án þess að ég þori að fullyrða það man ég ekki eftir öðrum nýjum hægri flokki en Hægri grænum, ef frá er talin tímabundinn klofningur sem varð í Sjálfstæðisflokknum. Fyrir utan þetta man ég ekki eftir því að boðað hafi verið nýtt framboð á hægri vængnum.

Óvíst hvort jarðvegur sé fyrir slíkt. Fer eftir því hvernig núverandi formaður nær að sameina ólík sjónarmið innan flokksins. Fyrirfram mætti gera ráð fyrir að það væri jarðvegur fyrir hægri flokk sem legði áherslu á aukna Evrópusamvinnu, jafnvel inngöngu í Evrópusambandið,“ segir Ómar Hlynur.  

Ómar Hlynur Kristmundsson er prófessor við Háskóla Íslands.
Ómar Hlynur Kristmundsson er prófessor við Háskóla Íslands. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert