Vilja söngkeppnina áfram á Akureyri

Talsverður kurr er nú meðal framhaldsskólanema vegna fregna um að söngkeppni þeirra kunni að verða haldin í Reykjavík í ár. Söngkeppni framhaldsskólanna er meðal stærstu tónlistarviðburða landsins og telja margir komna hefð fyrir því að halda hana á Akureyri, þar sem hún hefur verið síðustu 5 ár.

„Það hefur alltaf verið mikil stemning fyrir því að hafa þetta hérna fyrir norðan. Svo er líka talsverður hluti af viðburðum framhaldsskólanna fyrir sunnan, þannig að það er gaman að brjóta þetta upp og hafa einn stóran viðburð hér. Okkur er mjög umhugað um að svo verði," segir Sindri Már Hannesson, formaður Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri.

Ekkert niðurneglt ennþá

Það er viðburðastjórnunarfyrirtækið AM Events sem hefur skipulagt söngkeppnina undanfarin 5 ár og hefur keppnin á þeim tíma alltaf verið haldin í íþróttahöllinni á Akureyri. Samkvæmt heimildum Mbl.is er það fyrst og fremst aukinn kostnaður sem veldur því að rætt hefur verið að flytja keppnina til Reykjavíkur. M.a. kostnaður fyrir bæjarfélagið og fyrir sjónvarpið við að senda hana út. Andri Geirsson, talsmaður AM Events, segir að ekkert hafi verið ákveðið í þessum efnum. Verið sé að skoða alla möguleika í stöðunni.

Ljóst er hinsvegar að margir verða vonsviknir verði Akureyrarhefðin brotin. Nemendafélög MA og VMA hafa tekið höndum saman um að beita sér í málinu. „Við erum mikið að berjast fyrir því að hafa þetta hér fyrir norðan og erum að reyna að fá fund með bæjarráði en eigum eftir að fá svar frá þeim. En keppnin fer fram í apríl svo það er ennþá tími til stefnu," segir Sindri.

Um 1000 manns mæta á keppnina

Málið snertir ekki bara Eyfirðinga, óánægju með breytinguna hefur líka gætt meðal nemendafélaga framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu, þar sem vinsælt hefur verið að fara í hópferðir norður á land af þessu tilefni.

„Við erum líka að reyna að fá skólana á Egilsstöðum og Húsavík í lið með okkur, því það er styttra fyrir marga að koma hingað en að fara til Reykjavíkur," segir Sindri. „Það eru yfirleitt í kringum 1000 manns sem mæta á þessa keppni og langflestir framhaldsskólar eiga sína fulltrúa þannig að það skapast rosaleg stemning í kringum það að koma hingað norður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert