Steingrímur: Hagkerfið á uppleið

Úr Kringlunni. Steingrímur segir botninum náð í hagkerfinu eftir efnahagshrunið …
Úr Kringlunni. Steingrímur segir botninum náð í hagkerfinu eftir efnahagshrunið 2008. Eggert Jóhannesson

Ferðaþjónustan er í stórsókn og árið 2012 verður að óbreyttu umsvifamesta árið í sögu flugsins á Íslandi. Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, á flokksráðsfundi VG í Reykjavík nú síðdegis. Spá hans væri að hagvöxtur á árinu 2011 gæti orðið 3,5-4% en ekki 2,5% eins og áður var reiknað með.

„Útlitið fyrir árið 2012 er all gott. Almenn ytri skilyrði fyrir gjaldeyrisskapandi greinar eru góð. Stefnir í bestu loðnuvertíð í áraráðir,“ sagði m.a. í glærum Steingríms.

Meiri hagvöxtur en í Evrópu

Hagvöxtur væri meiri en víðast hvar í ríkjum ESB og mun betri en í Evrópu. Þýskaland, sjálfur mótorinn í efnahagsmálum álfunnar, væri að hiksta sem væri mikið áhyggjuefni. „Veruleikinn er auðvitað sá að það sem hefur bjargað okkur er að raunhagkerifð hefur reynst býsna öflugt ... og nýtt sér möguleika sem hagstætt gengi... hefur skapað,“ sagði Steingrímur og nefndi hvernig Icelandair hefði bætt við sig 420 starfsmönnum frá hruni, sem væri ígildi álvers. Þá hefði velta CCP náð 9 milljörðum í fyrra. Útflutningur landbúnaðarvara vaxi hratt, ásamt því sem aukning hefði orðið í lyfjaframleiðslu.

Óvissa væri um álverð. Vísbendingar væru um að eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja hefði aukist um 200 milljarða í lok ársins miðað við árslok 2008. Eigið fé yrði jákvætt um 140 milljarða miðað við neikvæða eiginfjárstöðu upp á 60 milljarða.

Ytri aðstæður og einkum í ástandið í Evrópu væru mesti óvissuþátturinn.

Konur duglegri að sækja námskeið

Steingrímur ræddi atvinnuleysið, sem mældist 7,2% á landinu öllu í janúar, og hvernig þátttaka í ýmsum námskeiðum kynni að skýra hvers vegna meira hefði dregið úr atvinnuleysi meðal kvenna en karla á síðustu mánuðum. Þá væri greinilegt að vinnumarkaðurinn væri stöðugri hjá konum en körlum.

Atvinnuleysi væri 2% meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni jafnvel þótt Suðurnes, þar sem það mælist mest, séu tekin með. Víðast hvar á landsbyggðinni væri atvinnuleysi undir 5%.

Steingrímur vék einnig að hinum „skelfilega landflótta“ sem sumir hefðu kosið að halda á lofti. Staðreyndin væri sú að jafnvægi væri að komast á brottflutning og aðflutning íslenskra ríkisborgara eftir hrunið. Þá bæri að horfa til þess að síðustu áratugi hafi fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess.

Spár um stórfelldan landflótta rættust ekki

„Sú hætta sem blasti við og var grafalvarleg... hefur ekki gengið eftir,“ sagði Steingrímur um hvernig áhyggjur af holskeflu brottflutnings, líkt og raunin varð eftir hrunið í Færeyjum á sínum tíma, hefðu sem betur fer ekki ræst.

Var það mat formanns VG að brottflutningur fólks væri því ekki skýringin á því hvers vegna atvinnuleysi hefði mælst svo hátt svo lengi eftir hrunið. Í gangi væri umfangsmesta menntungar- og endurmenntunarátak Íslandssögunnar á meðal atvinnulausra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert