Einn ræningjanna til landsins í dag

Þýfi úr ráninu.
Þýfi úr ráninu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Annar Pólverjanna, sem rændu úraverslun Franks Michelsen um hábjartan dag í október og voru handteknir í Sviss í febrúar, verður fluttur til landsins í dag. Gerð verður krafa um að hann verði látinn sæta gæsluvarðhaldi og í kjölfarið verður þáttur hans í ráninu rannsakaður nánar.

Að sögn Margrétar Unnar Rögnvaldsdóttur aðstoðarsaksóknara er ekki komið á hreint hvenær hinn Pólverjinn kemur til landsins en það verður á næstunni. Töfin orsakast af því að hann sætir rannsókn vegna afbrota í Sviss.

Sá sem væntanlegur er til landsins í dag verður fluttur fyrir dómara seinnipartinn eða undir kvöld en ekki fékkst gefið upp hversu langs gæsluvarðhalds er krafist. Spurð hvaða ferli taki við segir Margrét að tekin verði skýrsla af manninum og málið rannsakað frekar hvað hans þátt varðar. Þegar sambærileg skýrsla hefur verið tekin af hinum manninum og rannsókninni telst formlega lokið fer málið í hefðbundna ákærumeðferð.

Fjórir menn rændu verslunina á Laugavegi þann 17. október sl. Einn var handtekinn skömmu síðar hér á landi en hinir þrír voru þá farnir úr landi. Tveir þeirra voru svo handteknir í Sviss og var framsals þegar krafist en talið er að fjórði maðurinn sé í Póllandi. Sá sem handtekinn var hér á landi var í síðustu viku dæmdur í fimm ára fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert