„ESB að sýna Íslendingum hver ræður“

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sýna Íslendingum hroka með því að gerast aðili að „dæmalausu máli“ Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn Íslandi vegna Icesave-málsins á sama tíma og viðræður um inngöngu í sambandið séu í gangi. Eins og mbl.is hefur greint frá hefur framkvæmdastjórnin óskað eftir aðild að málssókn ESA gegn Íslandi.

„Framkvæmdastjórnin hefði alls ekki þurft að gera þetta því einstök ríki hafa fulla heimild til að óska efir aðild að málinu til stuðnings kröfu ESA eða til að styðja málstað Íslendinga. Líklegt verður að teljast að ein af ástæðum þess að ESB fer þessa leið er hræðsla við að eitthvert ESB ríki styðji málstað Íslendinga,“ segir Gunnar á heimasíðu sinni í dag.

Hann segir að erfiðara sé fyrir einstök ríki ESB að taka upp hanskann fyrir Íslendinga eftir útspil framkvæmdastjórnarinnar enda væru þau þá að taka afstöðu gegn henni. „Þá er augljóst að ESB er að sýna Íslendingum hver það er sem ræður og eyjaskeggjar eigi að hafa sig hæga.“

Gunnar fer síðan hörðum orðum um Vinstrihreyfinguna - grænt framboð vegna málsins og spyr hvort flokkurinn „ætli enn og aftur að lyppast niður fyrir fótum Evrópusambandsins og Samfylkingarinnar til þess eins að halda vonlausu stjórnarsamstarfi áfram.“

Hann segir eina möguleika VG í stöðunni til þess að öðlast einhvern trúverðugleika „að krefjast þess að viðræðum verði nú þegar hætt. Harðorðar greinar eða blogg gagnast ekkert þegar öllum er ljóst að VG hefur það í hendi sér að segja hingað og ekki lengra.“

Grein Gunnars Braga Sveinssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert