Stjórnarskrármál á hreyfingu

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin getur treyst á stuðning Hreyfingarinnar þegar kemur að því að greiða atkvæði á Alþingi um stjórnarskrármálið. Þetta segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.

Þingmenn Hreyfingarinnar, þau Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari,  funduðu með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, um stjórnarskrármálið í Ráðherrabústaðnum í dag.

Þór segir í samtali við mbl.is að fundurinn hafi verið stuttur en á honum hafi þau Jóhanna og Steingrímur leitað eftir stuðningi Hreyfingarinnar í tengslum við stjórnarskrármálið. Aðspurður segir hann að Hreyfingin hafi fengið fundarboðið í gær og Þór bætir við að það hafi komið sér á óvart.

„Þetta hefur náttúrlega tafist úr hófi fram þetta mál og þeim er í mun að klára það. Koma því frá,“ segir Þór.

„Það er verið að vísa málinu til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu og það er óþarfi að fólk sé með einhverjar málalengingar og málþóf í sambandi við það.“ Ríkisstjórnin geti því treyst á stuðning Hreyfingarinnar.

„Við erum búin að vera ein af þeim sem höfum ýtt þessu máli áfram í gegnum þingið alveg frá upphafi. Þetta er því engin spurning um einhvern stuðning við ríkisstjórnina, bara með hvaða hætti samstarfið í þessu máli verður áfram,“ segir hann.

„Við erum ekki komin í ríkisstjórn,“ segir Þór aðspurður, en ríkisstjórnin átti einnig langan fund í Ráðherrabústaðnum um fjárlög næsta árs. „Okkur er nú ekki boðið að því borði,“ segir Þór og hlær.

Stefnt er að því að hefja umræður um stjórnarskrármálið á Alþingi nk. miðvikudag. Þór segist reikna með að umræðunni ljúki á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert