„Klukkan tifar“

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

„Við höfum lagt fram ákveðið tilboð sem er á þeirra borði og það er þeirra að svara því. Þau hafa ekki gert það ennþá en dagurinn er samt ekki búinn,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, spurður út í viðræður Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina.

Hreyfingin hefur boðist til að styðja við bakið á ríkisstjórnarflokkunum náist samkomulag um tilboðið, sem snýr m.a. um aðferðir til að taka á almennum skuldavanda heimilanna.

„Maður hefur færst úr hóflegri bjartsýni í hæfilega svartsýni,“ segir Þór, spurður hvort hann sé bjartsýnn á að lending náist.

Hann segist í samtali við mbl.is vilja fá niðurstöðu í málið í dag. „Það er óþarfi að draga það mikið lengra en í dag. Þetta hefur allt legið fyrir lengi hvað þarf að gera [til að taka á skuldavanda heimilanna] og hvernig eigi að gera það,“ segir hann. „Klukkan tifar,“ bætir hann við.

Taka ákvarðanir á síðustu stundu

Ekkert nýtt sé að finna í tilboði Hreyfingarinnar til ríkisstjórnarinnar. „Þetta er það sama sem við töluðum um á milli jóla og nýárs. Þau eru búin að hafa þetta inni hjá sér núna þá í bráðum sex mánuði, en virðast ekki hafa skoðað þetta efnislega fyrr en í síðustu viku. Það er að vís svolítið sorglegt, því þetta er það mál sem brennur á öllum heimilum landsins.“

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er nú stödd á leiðtogarástefnu Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Chicago í Bandaríkjunum. Þór segir að Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sé hennar staðgengill. Hann sé á landinu og eigi að ráða við það að ræða við þingmenn Hreyfingarinnar.

Hins vegar sé ekki búið að ákveða neinn fund í tengslum við málið í dag. „Dagurinn er ekki búinn og hlutirnir gerast, í þessu húsi, því miður oft með mjög litlum fyrirvara. Menn taka ákvarðanir á síðustu stundu.“

Hann bætir við að bæði Samfylkingin og Vinstri grænir standi frammi fyrir „villikattasamfélagi“ í sínum þingflokkum. Það sé mjög erfitt að vinna og leysa úr málum á meðan ástandið sé með þeim hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert