Leitin hefur engan árangur borið

Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi við bæinn Geitafell á Vatnsnesi í …
Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi við bæinn Geitafell á Vatnsnesi í dag. mynd/Róbert Jack

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur sveimað yfir landinu norðvestanverðu frá því síðdegis í dag í leit að ísbirni en leitin hefur engan árangur borið. Lögreglan á Blönduósi segist viss um að ísbjörn sé á svæðinu og hvetur fólk til að hafa varann á. Hafa vegir að Vatnsnesi verið lokaðir.

Líkt og fram hefur komið tóku ítalskir ferðamenn, hjón á fimmtugsaldri með tvö börn, myndir af dýri sem þeir telja að sé ísbjörn á sundi stutt frá bænum Geitafelli á Vatnsnesi. Tilkynningin barst lögreglunni kl. 15:45 í dag. Lögreglumenn fóru fljótlega á vettvang til að svipast um eftir dýrinu og kl. 16:12 í dag fór þyrla Gæslunnar í loftið.

Vilja ná tali af ferðamönnunum

Lögreglan á Blönduósi biður þá sem vita hvar ferðamennina er að finna að hafa samband í síma 455-2666, en lögreglan hefur enn ekki rætt við ferðamennina, sem tóku bæði ljósmyndir og myndband. Ferðamennirnir aki um á silfurlituðum jepplingi og talið sé að þeir hafi ætlað að gista einhvers staðar í Húnavatnssýslunum í nótt.

Þá fundust spor í sandfjöru fyrir neðan Geitafell, en sporin eru um það bil 300 metra frá þeim stað sem ferðamennirnir sögðust hafa séð dýrið.

Skyttur til taks

„Hann getur verið hvar sem er,“ segir Hilmar Hilmarsson varðstjóri í samtali við mbl.is um ísbjörninn. Þyrlan hafi flogið nokkrum sinnum yfir Vatnsnesið án þess að finna dýrið.

„Það eru nokkrir klukkutímar síðan við fengum tilkynninguna og hann getur verið búinn að synda ansi langt,“ segir Hilmar og hvetur fólk til að hafa varann á sér.

Hann segir að leitin eigi nú við allan Húnaflóann og að þyrlan muni halda áfram að leita úr lofti. Skyttur eru lögreglunni til taks ef ísbjörninn finnst.

Leita að ísbirni á Vatnsnesi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert