Víkingarnir voru illa liðnir heima fyrir

Víkingarnir áttu erfitt með að aðlagast venjulegu heimilislífi eftir ránsferðir.
Víkingarnir áttu erfitt með að aðlagast venjulegu heimilislífi eftir ránsferðir. mbl.is/Þorkell

Hinir íslensku víkingar áttu afskaplega erfitt með að aðlagast eðlilegu heimilislífi þegar þeir sneru heim úr ránsferðum erlendis. Þetta segir vísindamaður við Aberdeen-háskóla sem rannsakar Íslendingasögurnar og fullyrðir að þar hafi fyrst verið skrásett tengingin milli offramleiðslu testósteróns og ofbeldishneigðar.

Nauðgarar og ræningjar ekki góðir eiginmenn

Dr. Tarrin Wills flutti í dag erindi á Breska vísindaþinginu og setti fram þá kenningu Íslendingar hafi haft djúpar áhyggjur af andfélagslegri hegðun í þeirri óöld sem ríkti hér á öldum áður. Það hafi verið hvötin baki því að rita svo nákvæmar mannlýsingar eins og við þekkjum í Íslendingasögunum, til að vara við ákveðnum manngerðum.

„Alvöru víkingur átti að vera árásargjarn og stjórnsamur. Hann fór utan, rændi og ruplaði,“ segir Wills. „Margir þessara náunga enduðu samt aftur heima þar sem þeir þurftu að róa sig niður og lifa venjulegu fjölskyldulífi og iðka landbúnað. Menn sem eru góðir í að nauðga og ræna, þeir eru ekki sérstaklega góðir eiginmenn og bændur.“

Áhyggjur af andfélagslegri hegðun

Hann segir að í gegnum Íslendingasögurnar skíni að almenningur hafi haft áhyggjur af því hvernig mætti ná stjórn á andfélagslegri hegðun í samfélaginu. Hin ríka bókmenntahefð hafi m.a. sprottið upp úr þessum jarðvegi. 

Wills bendir á að mörg þau ljóð sem ort hafi verið á Íslandi til forna feli í sér ítarlegar lýsingar á einstaklingum sem flestir myndu vilja forðast. Þar sé áhersla lögð á að lýsa líkamlegum eiginleikum sem bendi til mikils testósterónmagns, sem þekkt er að getur valdið ofbeldishneigð. Hann telur að Íslendingar hafi áttað sig á þessum tengslum og notað þá þekkingu til að bera kennsl á hugsanlega vandræðagripi. 

Egill Skallagrímsson rakið dæmi

Wills ákvað að rannsaka málið eftir að vísindagreinar sem hann las um tengsl testósterónmagns og árásarhneigðar minntu hann á það sem hann hafði lesið í Íslendingasögunum. Egill Skallagrímsson er meðal þeirra sem Wills skoðaði, en sem kunnugt er framdi hann sitt fyrsta morð aðeins 6 ára gamalt samkvæmt Eglu. Wills bendir á að Agli sé lýst sem alskeggjuðum með þungar augabrúnir, breitt enni og há kollvik. Allt séu þetta þekkt einkenni mikillar testósterónframleiðslu í líkamanum. 

Afar sjalfgæft mun hins vegar vera að mönnum sé lýst með þessum hætti í bókmenntum þess tíma. Wills telur því að höfundar Íslendingasagnanna hafi gert sér grein fyrir því að ákveðin líkamseinkenni væru varasöm, og viljað vara við því með skrifum sínum. Hann bendir á að Ísland hafi verið hálfgildings villta vestur á þessum tíma.

Fágað lagakerfi en ekkert yfirvald

„Þarna var margt ungra manna sem hver og einn reyndi að tryggja sér nógu mikið land, eiginkonu og fjölskyldu. Niðurstaðan var mjög hörð samkeppni sem braust oft út með ofbeldi. Víkingarnir höfðu mjög fágað lagakerfi, en á Íslandi höfðu þeir ekkert miðstýrt yfirvald til að fylgja því eftir.“

Að þessu leyti segir Wills að Íslendingar hafi í raun verið fyrstir manna til að skrifa gagnorða lýsingu á atferli og skapgerðareinkennum misindismanna.

Úr handritasafni Árna Magnússonar.
Úr handritasafni Árna Magnússonar. Mbl.is/Ómar Óskarsson
Egill Skallagrímsson
Egill Skallagrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert