Þúsund á biðlista eftir íbúð

Byggja á tæplega 300 íbúðir í Vatnsmýrinni.
Byggja á tæplega 300 íbúðir í Vatnsmýrinni.

Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar frumvarpi sem Guðmundur Steingrímsson hefur lagt fram á þingi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingar verði gerðar á lögum um húsaleigubætur en um eitt þúsund námsmenn eru á biðlista eftir íbúð hjá Félagsstofnun stúdenta. Vegna skorts á íbúðum fyrir námsmenn þurfa fjölmargir að vera á almennum leigumarkaði.

Samkvæmt frumvarpinu er lögunum breytt þannig að námsmenn sem leigja saman á almennum leigumarkaði munu geta fengið húsaleigubætur á einstaklingsgrundvelli, en ekki þannig að þær deilist á leigjendur íbúðarinnar. Undanþágan er þegar fyrir hendi fyrir þá sem leigja í heimavist eða á stúdentagörðum.

„Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar umræðum um breytingar á húsaleigubótum námsmanna og vill koma á framfæri þökkum til Guðmundar Steingrímssonar, óháðs þingmanns, fyrir að leggja sig fram við að halda þessu mikilvæga hagsmunamáli stúdenta á lofti.

Stúdentaráð vill einnig leggja áherslu á mikilvægi þess að aðrir alþingismenn styðji við frumvarp Guðmundar og aðstoði við að gera það að veruleika. Fjárhagsvandi stúdenta hefur verið óbærilegur fyrir marga á árinu með hækkun skrásetningargjalda, hækkun á strætókorti og síðast en ekki síst síhækkandi leiguverði á almennum leigumarkaði.

Oft var þörf en nú er nauðsyn. Öll aðstoð gegn fjárhagsvanda stúdenta, óháð stærðargráðu, mun skipta sköpum,“ segir í ályktun SHÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert