Urðu fyrir ofbeldi í meðferð

Elísabet Karlsdóttir félagsráðgjafi.
Elísabet Karlsdóttir félagsráðgjafi.

Tæplega 20% ungmenna sem dvöldu á meðferðarstofnunum Barnaverndarstofu á árunum 2000-2007 sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu annarra sem voru í meðferð á sama tíma. 14% sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi starfsmanna.

Þetta er meðal þess sem fram kom á kynningu í Háskóla Íslands í dag á niðurstöðum rannsókna á afdrifum barna sem dvöldu á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu á árunum 2000-2007. Ungmennin eru flest á aldursbilinu 20-25 ára.

Ungmenni sem dvöldu í Götusmiðjunni voru ólíklegust til að verða fyrir ofbeldi.

Heldur fleiri stúlkur en piltar sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi starfsmanna. Þrátt fyrir þetta sögðu ungmennin að dvölin væri almennt jákvæð og að tengsl við starfsmenn hefðu almennt verið jákvæð, styðjandi og farsæl.

Spurð um reynslu sína af dvölinni sögðust 59% þeirra hafa hana hjálpað sér mjög vel eða frekar vel við að takast á við þann vanda sem þau áttu við að stríða. Þá var meirihluti þeirra sáttur við þátttöku foreldra sinna í meðferðinni.

Rannsóknin var gerð af þeim Elísabetu Karlsdóttur félagsráðgjafa og Ásdísi A. Arnalds félagsfræðingi fyrir hönd Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd og Barnaverndarstofu. Markmiðið var að afla upplýsinga um viðhorf barnanna til slíkar vistunar og afdrif þeirra eftir að meðferð lauk.

Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu sagði að niðurstöðurnar væru áþekkar þeim sem norskar rannsóknir hafa sýnt fram á. Hann sagði að tölur um ofbeldi væru áhyggjuefni, á þeim gætu verið ýmsar skýringar. Eina leiðin til að kanna þetta betur væri að boða alla þá, sem voru í meðferð á þessum tíma, í könnunarviðtöl og að það yrði gert fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert