Íbúar upplýstir um erfiða stöðu Eirar

Hjúkrunarheimilið Eir rekur Eirborgir
Hjúkrunarheimilið Eir rekur Eirborgir mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnendur Eirar hjúkrunarheimilis hafa í dag fundað með íbúum öryggisíbúða hjúkrunarheimilisins og kynnt fyrir þeim alvarlega stöðu hjúkrunarheimilisins. Eins og fram hefur komið skuldar Eir Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum sex milljarða króna og íbúum tvo milljarða króna.

Sveinn Magnússon, forstöðumaður eignaumsýslu Eirar, segir að eðlilega séu íbúaréttarhafar ekki sáttir við stöðu mála hjá hjúkrunarheimilinu enda staðan grafalvarleg.

Hann segir að því miður hafi tími ekki gefist til þess fyrr en í dag að fara yfir málin með íbúum þar sem stutt sé síðan farið var í að rannsaka stöðu mála ofan í kjölinn og það komið í ljós hversu alvarleg fjárhagsstaðan er.

Stjórn Eirar hefur greint frá því að helstu ástæður fyrir slæmri stöðu Eirar séu þær að haldið var áfram byggingu 111 öryggisíbúða við Spöngina í Grafarvogi (Eirborgir) eftir hrun þrátt fyrir seinkun á byggingu félags- og þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar um nokkur ár. 

Stór hluti íbúðanna hefur verið vannýttur í 2-3 ár og enn eru um 27 lausar íbúðir í húsinu sem tekjur hafa ekki fengist af. Eins eru 7 íbúðir nýttar undir þjónustu þar sem ekki hefur enn verið byggð þjónustumiðstöð við húsið. Hins vegar eru framkvæmdir að hefjast við þjónustumiðstöðina og á þeim að ljúka á vormánuðum 2014.

Á sama tíma hefur íbúðaverð á markaði lækkað, en aukin verðbólga leiddi til þess að skuldir og inneignir íbúðaréttarhafa hækkuðu vegna verðtryggingarákvæða. Bygging og rekstur öryggisíbúða er á sömu kennitölu og rekstur hjúkrunarheimilisins, en slíkan rekstur hefði verið ákjósanlegt að aðskilja frá upphafi, segir í tilkynningu frá stjórn Eirar.

Enginn rekinn út af heimili sínu

Að sögn Sveins er ljóst að enginn verði rekinn úr íbúðum sínum en engu að síður hefur fólk lagt verulega fjármuni inn í Eir gegn íbúðarétti en án annarra trygginga fyrir þeim peningum.

Hann segir að nú séu þrjár endurgreiðslur gjaldfallnar og verið sé að leita eftir því við íbúðaréttarhafa að fá frest á endurgreiðslu á meðan leitað er leiða til þess að leysa vanda Eirar. Eins og áður sagði eru helstu kröfuhafarnir Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir sem eru með tryggingar í íbúðunum.

„Þó svo að fólk hafi í einhverjum tilvikum borgað að fullu þá á það ekkert í íbúðunum. Samningar kveða bara á um að fólk hafi lagt til greiðslu svokallaðs íbúðarréttar og féð sé síðan ávaxtað í samræmi við vísitölu að frádregnum kostnaði,“ segir Sveinn.

Logið til um stöðu mála

Hann segir að á sínum tíma, það er á útrásartímanum, hafi þetta gengið ágætlega og eftirspurnin verið að sama skapi og fólk komið inn um leið og íbúðir losnuðu.

„Það sem gerðist var að farið var að reisa 111 íbúðir nánast á sama tíma hrunið varð. Það alvarlega í stöðunni var að upplýsingar til stjórnar voru á þann veg að búið væri að ráðstafa íbúðunum fyrirfram. En það var bara ósatt,“ segir Sveinn og vísar þar til samskipta fyrri framkvæmdastjóra og stjórnar Eirar.

Sigurður Helgi Guðmundsson var um langt árabil framkvæmdastjóri Eirar en hann lét af störfum vorið 2011. Þá tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, stjórnarformaður Eirar, tímabundið við stöðunni en um síðustu áramót var Sigurður Rúnar Sigurjónsson ráðinn framkvæmdastjóri Eirar. 

Sigurður Rúnar kom ekki að húsrekstrarsjóði Eirar fyrr en 1. ágúst sl., en fram að þeim tíma hafði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson með þann málaflokk að gera samhliða stjórnarformennskunni. Það er ekki fyrr enn að Sigurður Rúnar fær aðgang að gögnum og upplýsingum tengdum málaflokknum eftir 1. ágúst að núverandi staða kemst upp á yfirborðið, segir Sveinn.

Stjórn Eirar 2011-2015 er eftirfarandi: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður, Magnús L. Sveinsson varaformaður, Stefán Benediktsson, Helga Eysteinsdóttir, Fanney Proppé Eiríksdóttir og Þórunn Sveinbjörnsdóttir.

Í ljós hafi komið að ekki var innistæða fyrir þessu og margar íbúðir enn lausar á sama tíma og leiguverð er hátt. Fasteignamarkaðurinn hefur einnig verið erfiður, það er þeir sem hafa viljað koma í öryggisíbúðir hafi átt erfitt með að selja íbúðir sínar til þess að koma inn í íbúð á vegum Eirar.

Í tilkynningu stjórnar Eirar frá því á föstudag kemur fram að stjórn stofnunarinnar vill taka það fram að unnið er að lausn sem miðar að því að engin röskun verði á starfsemi Eirar. Þannig verði engin breyting á högum fólks sem býr í öryggisíbúðum eða nýtur þjónustu hjúkrunarheimilisins. Sú endurskipulagning sem stendur yfir á rekstrinum miðast við langtímalausn á núverandi lánum og skuldbindingum og hefur ekki áhrif á þá þjónustu sem umbjóðendum Eirar er veitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert